Landamæri Finnlands og Rússlands hafa verið lokuð frá því í desember. Ríkisstjórn Petteri Orpo forsætisráðherra skellti í lás eftir að hundruð flóttamanna frá Afríku og Asíu byrjuðu skyndilega að streyma að landamærunum frá Rússlandi í nóvember. Stjórnvöld í Helsinki sökuðu Rússa um að standa að flóttamannastrauminum til þess að hefna sín fyrir að Finnland gekk í Atlantshafsbandalagið í fyrra.
Lokunin hefur fram að þessu verið endurskoðuð og framlengd á tveggja mánaða fresti en að þessu sinni er hún ótímabundin, að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE. Hún nær nú einnig til þriggja smábátahafna við landamærin til að koma í veg fyrir að hælisleitendur reyni að sigla yfir til Finnlands. Hafnirnar verða lokaðar skemmtibátum frá miðjum þessum mánuði.
Mari Rantanen, innanríkisráðherra Finnlands, segir engin merki um að staðan hafi breyst frá því í vetur. Með rísandi sól og batnandi veðri séu líkur á að flóttamannastraumurinn þyngist enn frekar. Hundruð og jafnvel þúsundir manna gætu reynt að fara yfir landamærin frá Rússlandi.
Hægristjórn Orpo hyggst einnig reyna að koma í gegn nýjum lögum sem gerði henni kleift að snúa hælisleitendum beint aftur til Rússlands ef umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd eru ekki taldar eiga rétt á sér. Gagnrýnisraddir eru uppi um að frumvarp þess efnis stríði gegn alþjóðlegum sáttmálum um landamæri ríkja.