Með nýrri löggjöf er mega fullorðnir hafa allt að 25 grömm af kannabisefnum meðferðis. Þá er einnig heimilt að rækta allt að þrjár maríhúana-plöntur í heimahúsum.
Á miðnætti söfnuðust grasreykingarmenn við Brandenborgarhliðið í höfuðborginni Berlín til að fagna lögleiðingunni. Hart hefur verið tekist á um lagabreytinguna á þingi. Þeir sem eru fylgjandi lögleiðingunni hafa haldið því fram að með breytingunni sé ungt fólk betur varið gegn spilltu kannabis.
„Kannabisneysla var til staðar í gær. Hún hefur aukist,“ segir heilbrigðisráðherrann Karl Lauterbach. „Nú er hún komin af „tabú-svæðinu“. Með breytingunni er betur hægt að tækla fíkn, sinna forvörnum og slá á svarta markaðinn.“
Dómsmálaráðherra landsins hefur auk þess bent á að með lögleiðingunni minnki álag á lögreglu.
Það eru hins vegar ekki allir jafn sáttir við breytinguna. Þar á meðal Katja Seidel, sálfræðingur á fíknimiðstöð í Berlín.
„Frá okkar sjónarhóli er þetta hörmung. Aðgengi að efnunum verður betra, ímyndin breytist meðal ungmenna,“ er haft eftir Seidel í frétt AFP. Hún telur ljóst að neysla muni aukast til muna.