Í Vestmannaeyjum var topplið FH í heimsókn. Fór það svo að Eyjamenn unnu fjögurra marka sigur, lokatölur 32-28.
Elmar Erlingsson fór hamförum í liði ÍBV, skoraði hann 9 mörk. Þar á eftir kom Daniel Esteves Vieira með 7 mörk úr aðeins 9 skotum. Petar Jokanovic varði 16 skot í markinu og var með 50 prósent hlutfallsmarkvörslu.
Hjá FH var Einar Bragi Aðalsteinsson markahæstur með 5 mörk og Daníel Freyr Andrésson varði 15 skot í markinu.
FH er sem fyrr á toppnum með 33 stig, þremur á undan Val þegar öll lið hafa leikið 19 af 22 leikjum. ÍBV er í 4. sæti með 24 stig.
HK tók á móti Fram í leik sem gestirnir unnu með níu marka mun, lokatölur 26-35. Stjarnan vann Selfoss í heldur rólegum leik, lokatölur í Garðabæ 24-19. Á Seltjarnarnesi var Afturelding í heimsókn. Þar unnu gestirnir tveggja marka sigur, lokatölur 27-29.
Stöðuna í deildinni má finna á vefsíðu HSÍ.