Gangan hefst á Arnarhóli, þar sem byrjað verður að safnast saman klukkan tuttugu mínútur í fimm og svo gengið af stað klukkan fimm. Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, Salka, er einn skipuleggjenda.
„Okkur finnst Arnarhóll táknrænn staður fyrir baráttu kvenna, allavega hérna á Íslandi. Og göngum svo saman í Kolaportið þar sem verður haldinn baráttufundur sem að þessu sinni er hugsaður fyrir Palestínu og verið að fókusera á palestínskar konur og verið að sýna samstöðu með palestínskri femínískri baráttu,“ segir Salka.

Á fundinum í Kolaportinu verður boðið upp á ræður og tónlistaratriði; DJ flugvél og geimskip flytur frumsamið lag um Palestínu, lesin verða ljóð á arabísku og íslensku og flóttakonur frá Palestínu sem hafast við í neyðarskýli Rauða krossins ávarpa fundinn. Þá flytja ræður Amal Tamimi, fyrsta konan af erlendum uppruna til að taka sæti á Alþingi, og Enas Dajani, palestínskur háskólanemi og baráttukona.
„Svo verðum við með skemmtilegt palestínskt kaffihús. Þar eru palestínskar konur búnar að búa til palestínskt bakkelsi og veitingar og verða með te í anda Palestínu,“ segir Salka.
„Við erum að einbeita okkur að því að lyfta upp röddum kvenna bæði frá Palestínu og kvenna af erlendum uppruna, það er sérstaklega mikilvægt núna.“
Salka vonast eftir góðri mætingu. Yfir þúsund manns hafa meldað sig í gönguna á Facebook.
„Þessi dagur er auðvitað dagur okkar baráttu og við eigum að láta í okkur heyra á þessum degi. En auðvitað eru öll velkomin. Þó að þessi ganga sé hugsuð þannig að konur og kvár komi og gangi saman þá er allt stuðningsfólk velkomið í þessa baráttu.“