Innlent

Frelsis- og mannúðarmál að heimila dánaraðstoð

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
FotoJet (2)

Dánaraðstoð verður lögleg á Íslandi ef frumvarp Viðreisnar nær fram að ganga en þó með skilyrðum. Frumvarpið er á dagskrá þingsins í dag. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins segir þetta vera frelsis- og mannúðarmál.

Markmið frumvarpsins er að heimila fólki með ólæknandi sjúkdóma og búa við ómeðhöndlanlega og óbærilega þjáningu að þiggja dánaraðstoð. Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

„Ég held að við höfum langflest persónulega reynslu af því að horfa upp á ástvin þjást af völdum banvæns sjúkdóms og viljum gera betur í þeim efnum og þó svo að líknameðferð sem við komandi hefur fengið hafi verið góð þá er viðkomandi kannski bara löngu tilbúinn að kveðja,“ segir Katrín.

Í þessum skrifuðu orðum er verið að ræða efni frumvarpsins á Alþingi. Hægt er að fylgjast með umræðum í beinni útsendingu á vef Alþingis.

Dánaraðstoð yrði þó aðeins heimil að skilyrðum uppfylltum. Sjúklingur sem vill þiggja dánaraðstoð þyrfti að lýsa yfir afdráttarlausum og óvéfengjanlegum vilja, að eigin frumkvæði.

„Þetta er í grunninn frelsis- og mannúðarmál. Hér erum við að tala um yfirráðsrétt einstaklingsins yfir eigin lífi og líkama en við erum líka að tala um þegar við erum búin að berjast til síðasta blóðdropa, getum ekki meir, og erum bara svolítið tilbúin að fara að við sé okkur gert kleift að hafa einhverja stjórn á því.“

Læknum gefið samviskufrelsi

Læknum bæri skylda til að ganga úr skugga um að viðkomandi sjúklingur uppfylli skilyrði samkvæmt frumvarpinu en þeir þyrftu líka að leita álits óháðs læknis sem annast hefur sjúklinginn. Mánuður þyrfti að líða frá því sjúklingur óskar eftir dánaraðstoð og þar til hún yrði veitt. Samkvæmt frumvarpinu gætu læknar neitað að framkvæma dánaraðstoð stangist hún á við trúarleg eða siðferðisleg viðhorf þeirra.

„Það er bara ótrúlega mikilvægt að þeim sé veitt það því þrátt fyrir að viðhorf heilbrigðisstarfsfólks sé orðið mun jákvæðara í garð dánar aðstoðar en það var áður þá er þetta náttúrulega alveg siðferðisleg spurning sem hver og einn verður að meta fyrir sjálfan sig.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×