„Það hefur orðið algjör forsendubrestur í viðskiptasambandi okkar við Wok On og lögmenn félagsins hafa hafið vinnu við að slíta sambandinu,“ segir Brynjólfur Jón Baldursson, forsvarsmaður og einn eigenda Gróðurhússins, í samtali við Vísi.
Wok On í Hveragerði var einn fjölmargra veitinga- og gististaða í eigu Davíðs Viðarssonar, sem lokað var í gær. Aðgerðirnar voru einar þær umfangsmestu sem ráðist hefur verið í hér á landi. Krónan reið á vaðið strax í gær og sleit öllu samstarfi við Wok On.
Líklega bolað út úr annarri mathöll
Mbl.is greindi frá því í morgun að forsvarsmenn Mathallarinnar Höfða skoðuðu nú samning sinn við Wok On og íhugaði næstu skref í ljósi stöðunnar.
Haft er eftir Sólveigu Andersen, einum eigenda mathallarinnar, að málið hefði komið eins og þruma úr heiðskýru lofti í gær og engin ákvörðun hefði enn verið tekin. Málið væri þó skoðað alvarlega.