Erlent

Gáfu stjórn­völdum langt nef og sam­þykktu að hækka elli­líf­eyrinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eldra fólk greiðir jú skatta og heldur upp á jólin, ekkert síður en yngra fólkið.
Eldra fólk greiðir jú skatta og heldur upp á jólin, ekkert síður en yngra fólkið.

Svisslendingar samþykktu um helgina að hækka ellilífeyrinn í landinu sem nemur einum mánuði á ári og höfnuðu því að hækka eftirlaunaldurinn í 66 ár.

Stjórnvöld hafa varað við því að ekki sé til innistæða fyrir hækkuninni.

Af þeim sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær greiddu 60 prósent atkvæði með því að bæta þrettánda mánuðinum af ellilífeyrisgreiðslum við árið. Þá höfnuðu 75 prósent því að hækka eftirlaunaaldurinn úr 65 árum í 66 ár.

Framfærslukostnaður er óvíða meiri en í Sviss, sérstaklega í borgum á borð við Zurich og Genf. Hámarksellilífeyrir í landinu eru 2.550 evrur á mánuði, 382 þúsund krónur, sem margir segja ekki nægja til að eiga í sig og á.

Konur sem hafa gert hlé á starfsferlinum til að eignast fjölskyldu og innflytjendur eru sagðir eiga sérstaklega erfitt með að ná endum saman.

Það voru verkalýðsfélög landsins sem knúðu á um þjóðaratkvæðagreiðsluna, gegn mótmælum stjórnvalda, þingmanna og atvinnurekenda sem segja ekkert svigrúm fyrir hækkunina.

BBC bendir á að Svisslendingar hafi oft farið að ráðum stjórnvalda, til að mynda þegar þeir höfnuðu því að bæta við viku af orlofi fyrir nokkrum árum, en svo fór ekki að þessu sinni.

Niðurstöðunni hefur verið lýst sem sögulegum sigri fyrir ellilífeyrisþega en með breytingunni verður ellilífeyriskrefið fært til samræmis við launakerfið, þar sem launþegar fá þrettán mánuði greidda á ári, nánar tiltekið tvöföld laun í nóvember.

Sú breyting var gerð til að gera fólki kleift að eiga fyrir jólunum og sköttum ársins en eins og ellilífeyrisþegar í Sviss hafa bent á er ellilífeyririnn líka skattlagður og þá hætta menn ekki að halda upp á jólin þegar þeir verða 65 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×