Innlent

Sakar ráð­herra um svik og kjör­dæma­pot í sam­gönguáætlun

Lovísa Arnardóttir skrifar
Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, og formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar, sakar Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra um kjördæmapot.
Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, og formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar, sakar Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra um kjördæmapot. Vísir/Ívar Fannar og Anton Brink

Jónína Brynjólfsdóttir, formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og varaþingmaður Framsóknarflokksins, sakar Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra um kjördæmapot. Hún segir hann hafa fært Fljótagöng efst á framkvæmdalista samgönguáætlunar í stað Fjarðarheiðagangna. Hún segir engin rök fyrir slíkri breytingu á samgönguáætlun og kallar eftir svörum frá ráðherra. Ráðherra hefur áður sagt að hann sé ekki bundinn af áætlunum fyrri ríkisstjórnar.

Eyjólfur kynnir í dag samgönguáætlun fyrir tímabilið 2026-2040 og fimm ára aðgerðaáætlun einnig. Kynningin hefst klukkan hálf ellefu og verður í beinu streymi á Vísi. Áætlunarinnar hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, ekki síst hvaða jarðgangakostur verði efstur á blaði. Bæði RÚV og Morgunblaðið hafa það eftir heimildum að þar hafi Fljótagöng nú verið sett í forgang.

Göngunum er ætlað að tengja Siglufjörð við Fljótin. Um er að ræða 24 kílómetra vegagerð og 5,3 km löng jarðgöng. Verði þetta niðurstaðan er ljóst að Austfirðingar munu telja sig svikna, en samkvæmt síðustu samgönguáætlunum hefur verið gert ráð fyrir að Fjarðarheiðargöng yrðu næstu jarðgöng landsins. Síðustu göng sem voru gerð voru Dýrafjarðargöng á Vestfjörðum.

Jónína ræddi tíðindin í Bítinu á Bylgjunni nú á áttunda tímanum. Hún er ekki sátt og segir að ef af þessu verði sé um svik á áður gefnum loforðum í fyrri samgönguáætlun. Hún segist hafa verið að benda á þetta frá því í sumar, hafi skrifað um það greinar og sent brýningu á þingmenn í vikunni. Einnig fjallaði hún um það í Facebook-færslu í gærkvöldi. Þar gagnrýndi hún nýja forgangsröðun ráðherra harðlega og sagði þessi vinnubrögð hvorki fagleg né ígrunduð. Hún segir þetta vekja spurningar um traust sveitarfélaga gagnvart ríkinu þegar þau sýni slíkan óstöðugleika í áætlanagerð.

Hún segist fá viðbrögð frá þingmönnum en ráðherra hafi lítið viljað hlusta.

„Við höfum tekið eftir því frá því við funduðum með honum fyrst að hann hafði ofboðslega lítinn áhuga á okkar málstað og þykir það mjög miður,“ segir Jónína í Bítinu.

Hún segir nauðsynlegt að fá viðbrögð frá ráðherra og þess vegna gangi hún svona hart fram.

„Því samgönguáætlun, hún er byggð á lögum, og skiptist í tvennt. Það er langtímaáætlun til tólf ára og svo er nánari framkvæmda- og rekstraráætlun til fjögurra ára. Fjarðaheiðagöng eru inni á framkvæmdahluta áætlunarinnar, það er búið að hanna þau og þau eru tilbúin,“ segir hún og þess vegna sé eðlilegt að spyrja hvort verkfæri eins og samgönguáætlun, sem eigi að tryggja að verkefni ríkisins fái framgöngu, sé ónýtt verkfæri.

Jónína segist þannig spyrja sig hvað gerist þegar ný ríkisstjórn tekur við eða nýr ráðherra tekur við, hvort öllu verði hent upp í loft og göng í kjördæmi ráðherra verði efst á blaði hverju sinni.

Hún segir að lögin hafi átt að koma í veg fyrir að slíkt gerðist þó það standi ekki beinum orðum. Í lýsingu laganna, umgjörðinni og lögunum sjálfum hafi átt að tryggja samfellu í framkvæmdum ríkisins. Hún bendir á að samgönguáætlunin hafi verið samþykkt með öllum atkvæðum á síðasta þingi.

Jónína segir Fjarðaheiðagöngin skipta máli því eins og staðan er í dag hafi Seyðfirðingar aðeins heiðina til að fara yfir. Það sé 620 metra hæð sem sé oft lokuð og erfið yfirferðar.

„Hún er gríðarlega brött, það er mikill halli og skorningar.“

Á Seyðisfirði búi um 600 manns auk þess sem það sé ein besta gáttin inn til landsins. Símalínan hafi fyrst komið þarna inn til landsins en auk þess sé fjörðurinn djúpur og lygn og henti vel til siglinga og því komi Norræna þarna að landinu og með því um 15 þúsund bílar árlega sem svo keyra um landið, bæði ferðamenn en einnig vöruflutningar.

Jónína segir göngin auk þess hafa verið eina af grunnforsendunum sem settar voru fyrir sameiningu sveitarfélaganna á svæðinu í Múlaþing árið 2022.

Jónína áréttar að samgönguáætlun þurfi þinglega meðferð og því sé hún, og aðrir í sveitarstjórn, alls ekki hætt að tala fyrir þessu máli. Því sé langt því frá lokið. Það hafi verið unnið að því að koma þessu að í samgönguáætlun frá árinu 2011.

Hún ítrekar að í samgönguáætlun hafi staðið og verið samþykkt á þingi að það ætti að fara í Fjarðaheiðargöng og Öxi. Auk þess hafi verið ákveðið að fara í hringtengingu á Austfjörðum með Fjarðagöngum og ef það eigi að víkja frá því verði að vera fyrir því góð rök. Fljótagöng hafi ekki fengið sömu þinglegu meðferð og eigi að færa þau ofar á lista þurfi það að gerast.

Talar ekki niður önnur jarðgöng

„Ég mun ekki tala niður önnur jarðgöng, ég mun ekki gera það af því að þegar það er þörf á jarðgöngum, þá er þörf á jarðgöngum og þá þarf að forgangsraða þeim,“ segir hún og að þetta hafi verið reynt við síðustu samþykkt samgönguáætlunar á þingi, að koma fleiri göngum að í áætluninni. Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi innviðaráðherra, hafi lagt fram lista með 14 göngum en það hafi ekki verið samþykkt.

Jónína segir þannig aldrei ætlun sína að standa í vegi fyrir því að Fljótagöng fari í framkvæmd en bendir á að allt frá árinu 2011 hafi verið ákveðið að fara í Fjarðarheiðargöng. Hún telur það ekki faglegt að skipta svo um kúrs, það séu engar skýrslur sem bendi til þess að það sé mikilvægara núna að fara í Fljótagöng. Það sé önnur leið út frá Siglufirði í gegnum Múlagöng og Héðinsfjarðargöng.

„Seyðfirðingar hafa enga aðra leið og ef heiðin er lokuð, þá er bara hægt að fara með sjó.“

Jónína bætir við að ef þetta verði niðurstaðan sé um augljóst kjördæmapot að ræða, en Fljótagangnaverkefnið er að hluta til í Norðvesturkjördæmi, sem er kjördæmi innviðaráðherra.

„Ég hef sagt það, ég hef sagt það í greinum, ég hef sagt það á Facebook og ég segi það alveg í útvarpi allra landsmanna. Í mínum huga er þetta kjördæmapot þangað til hann getur fært skynsöm rök fyrir því og þessari ákvörðun, og ég hef ekki fært þau rök.“


Tengdar fréttir

Áköf undirskriftakeppni hafin vegna jarðganga

Áköf keppni eru hafin í söfnun undirskrifta milli stuðningsmanna tveggja mismunandi jarðgangakosta á Austurlandi, annarsvegar Fjarðarheiðarganga og hinsvegar Fjarðaganga. Samtímis býður Vegagerðin út verkhönnun Fljótaganga, jarðganga á Norðurlandi, sem gæti bent til þess að þau verði næst í röðinni og tekin fram fyrir göng á Austfjörðum.

Fjarðarheiðargöng komin ofar í undirskriftakeppni

Fylgismenn Fjarðarheiðarganga hafa náð að safna fleiri undirskriftum en fylgismenn Fjarðaganga í ákafri keppni í söfnun undirskrifta sem stendur núna yfir á Austurlandi. Þar takast á stuðningshópar tveggja mismunandi jarðgangakosta í fjórðungnum.

Sendi yfirvöldum undirskriftir vegna Fjarðarheiðarganga

Undirskriftir 2.729 einstaklinga til stuðnings Fjarðarheiðargöngum milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar hafa verið sendar rafrænt til samgönguyfirvalda. Keppni í söfnun undirskrifta milli stuðningshópa tveggja mismunandi jarðgangakosta á Austurlandi heldur áfram á netinu en tólf dagar eru frá því innviðaráðherra voru afhentar 2.133 undirskriftir til stuðnings Fjarðagöngum, tvennum göngum milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar um Mjóafjörð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×