Innlent

Sýni að Vinstri græn séu í til­vistar­kreppu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur.
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur.

Vinstri græn mælast með 4,7 prósenta fylgi í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Flokkurinn myndi detta af þingi yrði það niðurstaðan. Stjórnmálafræðingur segir flokkinn í tilvistarkreppu. Minna fylgi Samfylkingar milli mánaða og aukið fylgi Miðflokks megi rekja til útlendingamála.

„Að flokkur forsætisráðherrans mælist undir þröskuldi og eigi það á hættu að falla út af þingi gerir auðvitað stöðuna einstaklega flókna fyrir þann flokk. Það blasir við. Þetta er flokkur í tilvistarkreppu,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur í samtali við fréttastofu.

Flokkurinn hefur ekki mælst með eins lítið fylgi í könnunum síðan hann var stofnaður í febrúar 1999. Fyrir mánuði mældist hann með 5,5 prósent sem hefði dugað til þriggja þingsæta. 

Eiríkur segir fylgið þó ekki þýða að Vinstri græn með geti ekki leitt ríkisstjórn eins og staðan sé í dag.

„En það veikir auðvitað forrystuna. Og það segir sig auðvitað sjálft, flokkurinn þarf auðvitað að reyna að finna einhverja viðspyrnu og hefur eflaust einhverjar áætlanir til þess.“

Útlendingamálin mögulega að koma í bakið á Samfylkingunni

Eiríkur segir það athyglisvert að Samfylkingin sé í fyrsta sinn í langan tíma að mælast með minna fylgi á milli kannanna. Flokkurinn mælist með tveimur prósentustigum minna fylgi milli mánaða og er með 28,2 prósent. Eiríkur segir flokkinn ekki virðast njóta ummæla Kristrúnar Frostadóttur formanns flokksins um útlendingamál.

„Það vekur auðvitað alveg sérstaka athygli að í kjölfar útspils formanns Samfylkingarinnar, breytta stefnu flokksins í raun og veru í málefnum útlendinga og hælisleitenda að þá fellur flokkurinn í fylgi. Hann nýtur semsé ekki þess útspils sem einhverjir hafa eflaust vænst að hann myndi gera,“ segir Eiríkur.

„Á móti eykst fylgi Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins, þeirra flokka sem héldu fyrir svona samsavarandi orðræðu og Samfylkingin hefur nú tekið upp. Við höfum séð það víða í löndunum í kringum okkur að stundum þegar flokkar taka upp málflutning annarra flokkka þá veitir það þeirra stuðningsmönnum réttmæti í raun og veru til að kjósa frummyndirnar frekar heldur en viðkomandi flokk og það getur vel verið að þarna séu slíkar hreyfingar á milli en við þurfum auðvitað að sjá fleiri kannanir áður en hægt er að slá slíku föstu.“

Umræðan færist nær stefnu Miðflokks

Þá heldur Miðflokkurinn áfram að bæta við sig. Í skoðanakönnunum undanfarna mánuði hefur flokkurinn jafnt og þétt bætt við sig fylgi en flokkurinn er með tvo þingmenn í dag. Hann mælist nú með 12,8 prósent og segir Eiríkur umræðu um útlendingamál koma flokknum vel.

„Ég myndi halda það að sú umræða sem verið hefur í landinu undanfarið um málefni útlendinga, hefur færst mun nær þeim málflutningi sem Miðflokksmenn hafa haldið úti yfir langa tíð og þar með eykst lögmæti málflutnings flokksins í augum kjósenda, við þá breytingu í umræðunn og það er augljóst að fylgi flokksins nýtur góðs af því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×