Norskir fjölmiðlar greina frá því að Þórir eigi í viðræðum um nýjan samning sem myndi gilda fram yfir Ólympíuleikana í Los Angeles árið 2028. Gangi það eftir mun Þórir í lok samningstímans hafa stýrt Noregi í nítján ár, en hann tók við sem aðalþjálfari liðsins árið 2009 eftir að hafa verið aðstoðarmaður Marit Breivik.
Undir stjórn Þóris varð Noregur í öðru sæti á HM í lok síðasta árs en liðið er ríkjandi Evrópumeistari eftir að hafa unnið EM tvö síðustu skipti. Alls hefur Noregur unnið þrjá heimsmeistaratitla, fimm Evrópumeistaratitla og eitt ólympíugull undir stjórn Þóris, auk fleiri verðlauna.
„Ég hef átt samtöl við bæði framkvæmdastjórann og formanninn. Þeir vilja mig áfram,“ segir Þórir sem kveðst ekki hafa mikinn tíma til að velta samningsmálum fyrir sér núna en reiknar þó með að niðurstaða fáist á allra næstu mánuðum.
Mikilvægt að horfa fram yfir næstu Ólympíuleika
Þórir væntir þess að niðurstaða náist fyrir Ólympíuleikana í París í sumar en í síðasta lagi að leikunum loknum. Þrátt fyrir rosalega velgengni kveðst hann ekki orðinn saddur.
„Í augnablikinu nýt ég þessa starfs í botn. En maður þarf að geta horft fjögur ár fram í tímann og verið viss um að þetta sé rétt ákvörðun. Það er mikilvægt að hugsa um þetta í fjögurra ára hringjum. Þá eru Ólympíuleikarnir 2028 og við fáum nokkra möguleika til að ná þangað inn,“ sagði Þórir.
Þórir hefur nú kallað landsliðshóp sinn saman fyrir tvo leiki við Austurríki, og liðið mætir svo Sviss og Ungverjalandi í apríl, í Evrópubikarnum svokallaða. Þar spila liðin sem eru örugg inn á EM í lok þessa árs. Ísland er í góðum málum í undankeppninni fyrir það mót og mætir Svíþjóð á heimavelli á morgun.