Aron gekk í raðir Vals fyrir tímabilið 2022 og átti samningur hans að renna út næsta haust. Fyrr í mánuðinum bauð Breiðablik í hann en tilboðinu var hafnað.
Aron hafði spilað með Blikum á sínum yngri árum og voru orðrómar þess efnis að hann gæti ímyndað sér að spila í grænu á nýjan leik. Nú er ljóst að það verður ekki af því þar sem hann hefur skrifað undir nýjan samning á Hlíðarenda. Samningurinn er til tveggja ára með möguleika á eins árs framlengingu eftir það.
„Ástæða þess að ég er að framlengja samning minn er einfaldlega sú að Valur er mjög heillandi félag og mér hefur liðið afskaplega vel á Hlíðarenda frá því að ég kom heim. Það eru líka spennandi tímar fram undan þar sem ég tel okkur vera með frábæran hóp. Frá því að ég kom heim hefur okkur ekki tekist að vinna alvöru titla og ég sé stórt tækifæri til þess að gera það með þessum mannskap,“ sagði Aron við undirskriftina.
„Fyrir mig persónulega þá mun ég bara halda áfram að byggja ofan á það sem við höfum verið að gera. Á síðasta tímabili spilaði ég aðeins neðar en ég er vanur að gera en var samt að skila mörkum og stoðsendingum. Ég ætla að bæta ofan á það og við ætlum að enda einu sæti ofar en á síðasta tímabili,“ bætti Aron við en Valur endaði í 2. sæti á síðustu leiktíð.
Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, er ánægður með að lykilmaðurinn Aron hafi framlengt samning sinn.
„Þetta eru mikil gleði tíðindi fyrir okkur Valsmenn. Aron er lykilmaður innan sem utan vallar og það er frábært að hann hafi ákveðið að taka slaginn áfram á Hlíðarenda. Áfram hærra.“
Valur hefur tímabilið 2024 þann 7. apríl þegar nýliðar ÍA mæta á Hlíðarenda.