Skoðun

Menningar­verð­mæti dans­listarinnar glatast jafnt og þétt

Magnús Árni Skjöld Magnússon skrifar

Dans er list augnabliksins. Ekkert kemur í stað þess að upplifa dansverk á þeim tíma og í því rúmi sem það er flutt. Eins og með önnur sviðslistaverk er það nærveran við listamanninn sem býr til galdurinn, hrífur okkur með og veitir okkur dýpri skilning á okkur sjálfum, sem er, vitaskuld, tilgangur listarinnar þegar upp er staðið.

En það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að varðveita heimildir um listaverkið og flutning þess. Tæknin hefur fært okkur fjölmargar aðferðir, svo sem myndupptökur, til að miðla til framtíðarinnar því sem fram fór. En dansverk eru oft varðveitt á annan hátt en þann, t.d. með handritum, dansnótum, ljósmyndum, búningum, leikmunum, plakötum og teikningum, en slíkir hlutir passa oft illa inn í hefðbundin skjalasöfn.

Hér á landi hefur varðveislu dansverka ekki verið sinnt sem skyldi. Myndbandsupptökur eru að mestu til staðar af verkum Íslenska dansflokksins, en lítið hefur varðveist þegar kemur að sjálfstæðu danssenunni. Þetta er auðvitað menningarsögulegt slys, því hér hefur danssenan verið í gríðarlegri sókn síðustu áratugi og mikilvægt er fyrir menningu þjóðarinnar að heimildir um þennan uppgangstíma séu varðveittar.

Við verðum því að gera betur. Við þurfum ekki að leita langt að fyrirmyndum að því hvernig þetta er gert, því að á hinum Norðurlöndunum er staðið mun betur að málum en hér og væri gott ef við gætum sett okkur það markmið að nálgast það sem þar gerist.

Í byrjun þessarar viku lagði ég, ásamt nokkrum öðrum þingmönnum fram þingsályktunartillögu sem miðar að því að fela menningar- og viðskiptaráðherra að hefja vinnu við að stuðla að varðveislu íslenskra dansverka. Innblásturinn að þessari tillögu kemur úr rannsókn sem nemandi minn við Háskólann á Bifröst, dansarinn Þorgerður Atladóttir gerði í tengslum við BA verkefni sitt síðasta haust.

Orð eru til alls fyrst. Í greinargerð með þessari tillögu er ráðherra hvattur til að hefja samtal við fagfólk innnan greinarinnar um hvernig verði best að þessu staðið. Best er ef hægt er að hefjast handa sem allra fyrst, því á meðan ekkert er gert erum við að tapa menningarverðmætum og leyfa þeim að glatast í augnablikinu. Þó augnablikið sé dýrmætt og ekkert komi í stað þess, getum við þó gert okkar besta til að varðveita heimildir um listina. Danslistin og okkar frábæru dansarar og danshöfundar eiga það skilið.

Höfundur er varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík norður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×