Skoðun

Tón­listar­vinir Rauða krossins vinna gegn ein­semd og ein­angrun

Guðrún Svava Viðarsdóttir skrifar

Í janúar hrinti Rauði krossinn á Íslandi af stað nýju Vinaverkefni, sem kallast Tónlistarvinir. Markmið Tónlistarvina, eins og annarra Vinaverkefna, er að efla og styrkja félagslega þátttöku og sporna við félagslegri einangrun.

Í Tónlistarvinum taka sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins að sér tónlistarsamveru og heimsækja þátttakendur að jafnaði hálfsmánaðarlega eða vikulega í um það bil klukkustund í senn, en heimsóknir eru alltaf útfærðar í samráði við þátttakendur í verkefninu. Verkefnið er hugsað sem leið til þess að mæta félagslegri og tónlistartengdri þörf þeirra sem eiga erfitt með að komast á tónleikastaði af einhverri ástæðu.

Í gegnum tíðina hefur verið notast við ýmsar aðferðir til þess að takast á við félagslega einangrun og einmanaleika. Til að mynda hefur verið unnið í því að bæta félagslega færni einstaklinga og hópa, efla félagslegan stuðning þeirra og að auka við tækifæri einstaklinga og hópa til félagslegra samskipta. Það er sömuleiðis ekki nýtt af nálinni að notast við tónlist til þess að sigla í gegnum flóknar og krefjandi tilfinningar, enda getur tónlist veitt mikinn stuðning við krefjandi aðstæður.

Tónlist hjálpar fólki að mynda tengsl

Félagsleg einangrun og einmanaleiki eru alvarleg þjóðfélagsleg vandamál sem bitna verulega á heilsu þeirra sem búa við slíkar aðstæður. Í réttu umhverfi getur tónlistarþátttaka styrkt félagslegar tengingar og dregið úr einmanaleika, en rannsóknir benda til þess að tónlist hafi víðtæka og mikilvæga verkun á skynjun okkar.

Með tónlist geta hlustendur líka upplifað skilning og tilfinningalegan stuðning. Tónlist getur auk þess aðstoðað fólk við að tilheyra, því að í gegnum tónlist myndast oft góðar forsendur fyrir félagslegum tengslum, enda fylgir hlustun og iðkun tónlistar oft mikil samvera og samkennd.

Ef þú eða einhver sem þú þekkir hefur áhuga á þátttöku í verkefninu, hvort sem það er sem sjálfboðaliði sem fer í heimsókn eða þátttakandi sem fær heimsóknir, er um að gera að hika ekki við að senda inn umsókn í gegnum vefsíðu Rauða krossins, www.raudikrossinn.is.

Höfundur er verkefnastjóri í félagsverkefnum Rauða krossins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×