Lífið

Full­trúi barnaverndar kom Snæ­dísi til bjargar

Jakob Bjarnar skrifar
Snædís hefur lifað erfiðu og viðburðarríku lífi. Hún var orðin fjögurra ára þegar hún sá hvítan mann fyrsta sinni, hún gerði tilraun til sjálfsvígs en söðlaði svo um og sneri sér að matreiðslu með frábærum árangri.
Snædís hefur lifað erfiðu og viðburðarríku lífi. Hún var orðin fjögurra ára þegar hún sá hvítan mann fyrsta sinni, hún gerði tilraun til sjálfsvígs en söðlaði svo um og sneri sér að matreiðslu með frábærum árangri.

Snædís Xyza Mae Jónsdóttir, matreiðslumeistari og þjálfari íslenska kokkalandsliðsins, er fædd á Filippseyjum og hún hefur lifað tímana tvenna.

Foreldrar hennar eignuðust hana mjög ung og móðir hennar flutti án hennar til Íslands skömmu eftir að hún fæddist. Þegar Snædís var fjögurra ára sótti móðir hennar hana og þær hófu nýtt líf saman á Íslandi. Nýja lífið á Íslandi gekk ekki alveg sem skildi og Snædís var inn og út af fósturheimilum sem unglingur. Það var ekki fyrr en fulltrúi Barnaverndar á Dalvík gekk henni í móðurstað að Snædís fór að ná að fóta sig í lífinu.

Snædís er gestur Einars Bárðar í nýjasta þættinum af Einmitt og þar ræða þau æsku hennar og hvernig hún lenti í matreiðslu og alla leið á Ólympíuleikana í matreiðslu sem þjálfari Íslenska landsliðsins.

Íslenska kokkalandsliðið er um þessar myndir í Þýskalandi að keppa á Ólympíuleikunum í matreiðslu. Snædís var fyrirliði landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Lúxemborg 2018, hún var fyrirliði landsliðsins á Ólympíuleikunum í Stuttgart árið 2020 þegar Ísland náði 3. sæti, sem er besti árangur Íslands til þessa, og nú er Snædís þjálfari landsliðsins sem lauk keppni á Ólympíuleikunum í vikunni og jafnaði sinn besta árangur.

Sá hvítan mann í fyrsta skipti fjögurra ára

Eins og áður sagði fæddist Snædís á Filippseyjum og fljótlega eftir fæðinguna flutti móðir hennar til Íslands til að hefja nýtt líf með íslenskum manni. Fjórum árum eftir fæðinguna kom móðir hennar aftur til Filippseyja og tók hana með sér til Íslands. 

Íslenski maðurinn kom með móður hennar að sækja Snædísi og það var þá sem Snædís sá hvítan mann í fyrsta skipti. Nýja lífið með mömmu hennar á Íslandi gekk aldrei alveg sem skildi en mæðgurnar áttu erfitt með að finna taktinn saman í þessu nýja og framandi umhverfi.

„Foreldrar mínir voru alltof ung þegar þau eignuðust mig. Ég var ekki hluti af þeirra plönum en þarna voru engar getnaðarvarnir og svo voru þau kaþólsk og fóstureyðingar ekki í boði. Þegar ég var tveggja ára kynntist móðir mín íslenskum manni á Filippseyjum. Ég kem úr fátækri fjölskyldu og lífsbaráttan var hörð á Filippseyjum,“ segir Snædís.

Móðir hennar fór og skildi hana eftir á Filippseyjum þangað til hún varð fjögurra ára. Lífið á Íslandi fyrstu árin var mjög erfitt, hún féll ekki inn í samfélagið og heimilisaðstæður voru erfiðar. Það endaði með afskiptum Barnaverndar sem flutti hana á fósturheimili. Fósturheimilin urðu nokkur og voru misjöfn og Snædís átti erfitt með að venjast þeim.

Bjarvætturinn hjá Barnavernd

Segja má að þessir erfiðleikar hafi náð hámarki þegar Snædís var flutt á sjúkrahús eftir misheppnaða tilraun til sjálfsvígs í 10. bekk. Eftir það átti að fara með Snædísi á Stuðla en þá steig Eyrún Rafnsdóttir starfsmaður Barnaverndar inn og beinlínis tók Snædísi að sér.

Eyrún hafði haft umsjón með Snædísi um nokkurt skeið og þekkti orðið vel til hennar. Snædís segist eiga henni gríðarlega mikið að þakka og í dag kallar Snædísi hana móður sína og fjölskylda Eyrúnar er hennar fjölskylda.

„Synir hennar og Ingvars mannsins hennar eru bræður mínir. Blóðmóðir mín býr rétt hjá þeim og ég held ágætu sambandi við hana í dag en það var ekki lengi.“

Hún segist einnig vera í góðu sambandi við Jón sem gekk henni í föðurstað þegar hún var fjögurra ára og er honum mjög þakklát.

„Ég er heppin að hafa ekki lent á götunni eða í einhverju rugli og er þakklát Eyrúnu fyrir það sem hún gerði fyrir mig,“ segir Snædís.

Hér er fjallað um sjálfsvíg. Fólk með sjálfsvígshugsanir getur hringt í Pieta-samtökin. Píeta síminn er opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.


Tengdar fréttir

Flókin æska leiddi hana á vit ævintýra

Snædís Xyza Mae Ocampo matreiðslumaður er einn af liðsmönnum kokkalandsliðsins. Hún er fædd á Filippseyjum en kom ung til Íslands þar sem hún þvældist á milli fósturheimila fyrstu árin. Snædís á óvenjulegt líf þótt ung sé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×