Lífið

„Ég var búinn að syrgja þetta líf“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Pétur Ernir Svavarsson leikari, performer, læknisfræðinemi og lífskúnstner ræddi við blaðamann um lífið og tilveruna.
Pétur Ernir Svavarsson leikari, performer, læknisfræðinemi og lífskúnstner ræddi við blaðamann um lífið og tilveruna. Vísir/Anton Brink

„Mér fannst þetta sérstaklega erfitt því ég upplifði að ég væri svo nálægt draumunum en samt svo langt frá,“ segir Pétur Ernir Svavarsson lífskúnstner með meiru. Pétur Ernir er 25 ára gamall leikari og tónlistarmaður sem er sprenglærður í listum en upplifði brostna drauma í Bretlandi, ákvað að flytja heim til Íslands og flaug inn í læknanám. Í kjölfarið fékk hann hlutverk í stærstu sýningu landsins en blaðamaður ræddi við hann um viðburðaríkt líf og ævintýri undanfarinna ára.

Landsbyggðarpúki með meiru

Pétur Ernir er fæddur árið 2000 og ólst upp á Ísafirði. Hann naut sín svo vel þar að hann ákvað að fara í menntaskóla þar.

„Ég er mikill landsbyggðarpúki og mér finnst frábært að vera á Ísafirði. 

Ég upplifi að flestir sem alast upp fyrir vestan vilji líka ala upp sín börn þar því það er algjörlega dásamlegt að vera barn þarna og alast upp við frelsið sem því fylgir.“

Pétur Ernir ólst upp á Ísafirði og naut þess í botn. Vísir/Anton Brink

Tónlist og framkoma var eitthvað sem kallaði snemma á Pétur.

„Ég var alla mína æsku í Tónlistarskólanum á Ísafirði þar sem ég lærði á klassískt píanó, klassískan söng, kórstjórn, saxófón og alls konar. 

Guð hvað ég er mikið lærður í tónlist skal ég þér segja. Það er auðvitað fullt af stórkostlegu listafólki frá Vestfjörðum og mikil gróska,“ segir hann brosandi.

Tilbúinn þegar öllu var skellt í lás

Þegar Pétur lauk menntaskóla ákvað hann að prófa að búa í höfuðborginni.

„Ég skráði mig í LHÍ í klassískt píanó og klassískan söng með smá söngleikjaívafi, því ég vissi að mig langaði að stefna í þá átt. 

Eins og mér fannst dásamlegt að búa á Ísafirði fann ég að þarna var kominn tími til að prófa eitthvað nýtt og ég var mjög tilbúinn að flytja suður.“

Stuttu eftir flutningana til Reykjavíkur skellur Covid á.

„Ég klára BA námið vorið 2022 sem er bara rétt eftir Covid þannig maður náði kannski ekki að kynnast Reykjavík almennilega, fyrr en í rauninni núna.“

Leiðin lá til London

Eftir útskrift lá leið Péturs beinustu leið til Bretlands í áframhaldandi meistaranám.

„Þetta var eins árs intensívur master í söngleikjaperformans við konunglegu tónlistarakademíuna eða Royal Academy of Music. 

Þú ert daglega í danstímum, söngtímum og leiklist og svo voum við að setja upp rosalegar sýningar líka. Lokaverkefnið var risa uppfærsla og það er alltaf lagt mikið púður í það.“

Þetta var gríðarlega áhrifamikil lífsreynsla að sögn Péturs.

„Allt er ótrúlega spennandi og skemmtilegt en á sama tíma var þetta svolítið mikið. Það var algjör draumur að prófa að láta á þetta reyna úti og ég þráði að komast á stóra sviðið.“

Allt að gerast samtímis

Pétur stendur á tímamótum þegar hann er að útskrifast úr skólanum.

„Það var allt að gerast í einu. Ég landa stærsta hlutverkinu í skólasýningunni sem var mikill heiður og mikil pressa. 

Ég var á sama tíma nýkominn með umboðsmann sem var að senda mig í alls kyns prufur og það var mikil togstreyta því skólinn vildi að maður væri bara að einblína á námið, sem er svolítið steikt. Þú ert í þessu námi til þess að fá hlutverk úti í raunheimum. 

Þarna var ég kominn í lokaúrtakið fyrir Vesalingana á West End, sem er mjög virt leikhús úti, og var í úrslitahópi fyrir risastóra söngvakeppni úti.“

Erfitt að missa draumana frá sér

Það stefndi allt í glæstan feril hjá Pétri sem var samt svolítið að brenna kertið á báða enda hjá sér.

„Svo einhvern veginn gerist lífið. Ég útskrifast, fæ ekki hlutverkið á West End, vinn augljóslega ekki þessa keppni og þá er bókstaflega ekkert í gangi. 

Allt í einu bý ég í kjallaraíbúð í úthverfi lengst frá miðborg London, vinn sem verslunarstarfsmaður hjá 66 Norður á Regent Street og lífið er allt annað en það sem ég hafði ímyndað mér. 

Draumurinn minn varð stöðugt fjarlægari og ég á sama tíma er að vinna úr einhvers konar kulnun frá lokaönninni í skólanum.“

Pétur fékk nokkur tilboð sem kölluðu þó ekki á hann, þar á meðal að syngja á skemmtiferðaskipi og taka þátt í sýningu á Ítalíu sem hljómaði mikið betur í fyrstu en var svo illa borgað og alls ekki eins spennandi og það hljómaði að hans sögn. 

Draumar annarra rættust

Úti bjó hann með þremur öðrum, þar á meðal maka sínum.

„Þau voru öll þrjú í rosalega flottum sýningum á West End. Við vorum öll saman í náminu og bjuggum öll saman og í hreinskilni sagt var auðvitað mjög erfitt að vera fyrir utan og sjá þau þrífast í þessum heimi, þótt ég samgladdist þeim.

Eftir ár af harki ákvað ég bara að þetta væri komið gott og við tók tímabil mikillar innri tiltektar. Mér fannst þetta sérstaklega erfitt því ég upplifði að ég væri svo nálægt draumunum en samt svo fjarri.“

Skrýtið að mega ekki leiðast á ákveðnum stöðum

Pétur er í fjarsambandi með El Haq Latief en hán býr í London og er frá Indónesíu.

„Við höfum verið að flakka fram og til baka London og Reykjavík og fórum svo í fyrra sumar saman til Jakarta.“

Pétur segir þau vera vön að ferðast en í Indónesíu er þó ólöglegt að vera hinsegin.

„Það er auðvitað mismunandi eftir stöðum hvernig þessu er tekið, Bali er til dæmis vestrænna útaf túristunum og miklu slakara. Indónesía er fjórða stærsta land í heimi þannig svæðin þar eru mjög fjölbreytt.

Foreldrar El eru strangtrúuð og eru ekki mjög sammála þessum lifnaðarhætti, ef svo má segja,“ segir Pétur og bætir við að það sé mjög sérstakt að þurfa til dæmis að passa meðvitað upp á að leiðast ekki á ákveðnum stöðum.

„Við erum mikið svona haldast í hendur par þannig það er extra skrýtið og eitthvað sem maður er auðvitað engan veginn vanur hér heima.“

Gott að koma út á Ísafirði

Pétur kom upphaflega út úr skápnum fimmtán ára gamall, fyrir rúmum tíu árum síðan.

„Ég sagði þetta fyrst upphátt við vinkonu mína þá.“

Pétur segir að Ísafjörður sé kærleiksríkt samfélag og allir þar hafi tekið honum eins og hann er.Vísir/Anton Brink

Hann segir að það hafi ekki þvælst fyrir honum að vera samkynhneigður í litlu bæjarfélagi.

„Ísafjörður er rosalega kærleiksríkt samfélag og ég vann aldrei fyrir því að ég væri eitthvað óvenjulegur. Það voru engin utanaðkomandi áhrif sem hindruðu mig í að vera ég sjálfur, sama hvaða hópa ég umgekkst.

Ég var meira að segja að starfa um tíma sem meðleikari fyrir karlakórinn Erni fyrir vestan og var fyrst smá stressaður að ég mætti ekki láta mitt innra sjálf í ljós þar en svo eru þetta auðvitað bara einhverjir yndislegustu karlmenn sem ég hef á ævi minni hitt. 

Það voru kannski aðallega bara innri djöflar sem maður var eitthvað að berjast við.“

London fullkomin til að prófa sig áfram

Þrátt fyrir að njóta sín vel á Ísafirði segist Pétur hafa fundið aukið og kærkomið frelsi í London.

„Mér fannst ég líka finna svo mikið rými og mikinn mun á sjálfum mér, að fá svona pláss til þess kannski að hverfa smá inn í fjöldan og prófa mig áfram með hvernig ég vildi vera og tjá mig sem samkynhneigður í svona stórborg.

Þegar ég flutti þá leið mér eins og ég hefði aukið frelsi til að skoða hvað það þýddi fyrir mig að vera samkynhneigður. Því það er enginn séns að þú sért að fara að hitta vinkonu mömmu þinnar úti í búð skilurðu. 

Það er bara eitthvað frelsandi við að vera ósýnilegur í risastórri borg og mér fannst gaman að fá aðeins að prófa mig áfram við að finna út hvernig ég vildi að mín eigin ímynd væri, að prófa mig áfram við að klæða mig svona eða hinsegin og prófa alls konar eitthvað skrýtið því enginn veit hver þú ert.“

Leið hræðilega illa

Við flutningana heim tekur Pétur það sem er vægast sagt kallað U-beygja.

„Ég er ekki á mínum besta stað og síðustu mánuðina úti líður mér eiginlega bara hræðilega illa. Ég flyt heim um páskana 2024 og fer þá beint heim til Ísafjarðar. 

Það var kærkomið að anda að sér fersku sveitalofti sem er andstæðan við mengunina í London.“

Pétur tók U beygju og flaug inn í læknisfræðina hér heima.Vísir/Anton Brink

Þegar Pétur tók á sínum tíma ákvörðun um hvert hann vildi stefna í lífinu blundaði innra með honum annar draumur, læknisfræðin.

„Ég er þarna að hugsa minn gang á Ísafirði og þessi draumur lætur aðeins á sér kræla, mig langaði að prófa að taka inntökuprófið í læknisfræði. 

Það eru tveir ólíkir partar innra með mér, söngleikjaperformerinn og svo raunvísindanördinn en þeir flæða oft einhvern veginn inn í sama mengið,“ segir Pétur kíminn.

„Mamma og pabbi unni bæði á sjúkrahúsinu fyrir vestan, mamma sem hjúkrunarfræðingur og pabbi sem kerfisfræðingur þannig maður var mikið í kringum þetta. Þarna var ég svo kominn með tækifæri til þess að kýla á þetta og ég hafði þarna um tvo mánuði til að læra á fullu fyrir þetta. 

Ég er ekki beint gaur sem gerir eitthvað af hálfum hug þannig ég lærði allan daginn alla daga. Þarna hafði ég verið í listnámi í fjögur ár og það var ýmis vitneskja sem ég þurfti aðeins að dusta rykið af.“

Flaug inn í lækninn og fékk draumahlutverkið á sviði

Það gekk svona líka glimrandi vel í prófinu hjá Pétri og hann flaug inn.

„Þetta var mjög spennandi en auðvitað smá erfitt líka, að skilja okkar líf eftir úti í London og byrja þennan nýja kafla, en sem betur fer var El til í að láta fjarsamband ganga upp og standa með mér. 

Þetta hefur flætt ótrúlega vel hjá okkur en er reyndar aðeins erfiðara og dýrara eftir að Play fór á hausinn.“

Leiklistin virðist líka óumflýjanlega verða að vera stór hluti af lífi Péturs því eftir að hann komst inn í læknisfræði fékk hann boð um að koma í prufu fyrir söngleikinn Moulin Rouge. 

Þar flaug hann líka inn og er því með hlutverk í stærstu sýningu landsins um þessar mundir.

„Performerinn fer auðvitað aldrei frá manni en þetta var svolítið sérstakt því ég var búinn að syrgja þetta líf, með því að taka þessa ákvörðun að koma heim og í raun gefa drauminn upp á bátinn. 

Svo kemur þetta tækifæri upp í hendurnar á mér og hver myndi segja nei við því! Frá því ég var þriggja ára dreymdi mig um að leika á stóra sviði Borgarleikhússins. 

Draumurinn rættist að geta gert bæði, auðvitað er brjálað að gera en allt er eins og það á að vera,“ segir Pétur og hlær en í kjölfarið fékk hann líka hlutverk í væntanlegri uppsetningu á Galdrakarlinum í Oz.

Líffræði á morgnana og háir hælar á kvöldin

„Daglegt líf hjá mér er smá eins og ég sé með tvær ólíkar manneskjur innra með mér. 

Það er eitthvað svo fyndið að mæta nývaknaður og þreyttur á fyrirlestur um sameindalíffræði klukkan átta um morguninn og klukkan 18 er ég svo kominn upp á svið með hárkollu og í háum hælum. 

Það er svo verðmætt að geta nært báðar hliðar og eins og er gengur þetta vel upp. Það munu koma tímar þar sem ég þarf að fórna öðru fyrir hitt og svo öfugt og það er allt í góðu. 

Ég er algjörlega tilbúinn að fylgja straumnum núna og sjá hvert lífið tekur mig,“ segir Pétur kraftmikill og glaðlyndur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.