Skoðun

Tímar út­lagans

Ástþór Jóhannsson skrifar

Skaðinn er skeður, menn og vélar mættar á staðinn, fjarlægja styttu, fjarlægja tjöld. En fátt er svo með öllu illt. Nú vantar nýtt minnismerki í staðinn.

Hér er uppástunga til borgaryfirvalda: Fyrir vestan gamla kirkjugarðinn stendur stytta Einars Jónssonar, „Útlaginn" – of mörgum gleymd og löngu horfin í þyrnirósuskóg, eins og HKL sá fyrir.

Er ekki tilvalið á tímum hörmunga, þingmanna og ráherrateymis sem er lostið „forréttindaskelfingu“ að færa útlagann með fjölskyldu sína, það sem eftir er af henni og hund, yfir í Lækjargötuna og minna á að flóttamenn eru til á öllum tímum, meira að segja á Íslandi; náttúruhamfarirnar á ýmsum öldum, Ameríkuferðirnar, flótti undan harðráðum og óréttlátum stjórnvöldum, tímabundnum efnahagskreppum - muniði - við höfum blessunarlega ennþá að mestu leyti sloppið við árásarstríð?

Mannlegar hörmungar eru ekki um öll ár og aldir bundnar við einn og sama heimshlutann og það ber ekki allt upp á sama daginn.

Að sjálfsögðu. Það eru milljónir foreldra í heiminum sem hafa orðið að sætta sig við að svona er staðan. Milljónir fólks á flótta sem finnst allt tal um framtíðina hljóma eins og foréttindi og munaður. Það reynir að komast lífs af og bjarga sér frá náttúruhamförum, loftslagsbreytingum, efnahagsskaða, stríðsátökum, komast burt úr þrotríkjum sem hafa orðið glæpum og græðgi að bráð, reyna að hjara á lífi frá einni stundu til annarar, til að komast úr öllu þessu helvíti á skárri staði, einmitt í þessum orðum lesnum.

Útlaginn er án efa mest aktúelt minnismerkið sem nú er uppi á opinberum stað hér í höfuðborginni og mundi sóma sér vel á fjölfarnari slóðum en nú er. Útlaginn í Lækjargötu væri þörf áminning á forréttindablindu og samhygð. Tímanna tákn.

Höfundur er íbúi í Reykjavík, sem þurfti unglingur að flýja frá æskustöðvum sínum í Eyjum vegna eldgoss 1973 og telur sig alla tíð síðan í hópi þeirra heppnu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×