Japanska liðið lenti í töluverðu basli gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag, þrátt fyrir góða byrjun. Japanir náðu mest fjögurra marka forystu í fyrri hálfleik, en arabíska liðið snéri taflinu við og fór með þriggja marka forskot inn í hálfleikshléið, staðan 13-16.
Japanir svöruðu þó fljótt fyrir sig í síðari hálfleik og jöfnuðu metin. Eftir það skiptust liðin á að skora stærstan hluta leiksins, en japanska liðið sigldi fram úr í lokin og vann að lokum þriggja marka sigur, 29-26.
Með sigrinum tryggði japanska liðið sér sæti í undanúrslitum þrátt fyrir að enn sé einn leikur eftir í riðli 1. Japan og Katar mætast í úrslitaleik um efsta sæti riðilsins næstkomandi sunnudag.
Þá unnu lærisveinar Arons Kristjánssonar frá Bareins góðan fimm marka sigur gegn Írak í riðli 2, 20-25. Með sigrinum lyfti liðið sér á topp riðilsins með þrjú stig, einu stigi meira en Suður-Kóre og Kúveit sem berjast um sæti í undanúrslitum við Barein.
Barein mætir einmit Suður-Kóreu í lokaleik riðilsins næstkomandi sunnudag þar sem lærisveinar Arons tryggja sér efsta sæti riðilsins og sæti í undanúrslitum með sigri.