Ísland og Þýskaland voru stigalaus fyrir leik dagsins. Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar eru á heimavelli og því var smekkfull höll í Köln sem tók á móti strákunum okkar. Eftir einkar súrt tap gegn Ungverjalandi þá sýndi íslenska liðið sitt rétta andlit á löngum köflum. Varnarleikurinn var frábær en því miður var færanýtingin af vítalínunni og úr hornunum einfaldlega ekki til staðar, því fór sem fór.
„Fannst spilamennskan – held ég – töluvert betri en hingað til á mótinu. Flæði sóknarlega og vorum að opna þá vel en enn og aftur erum við að klúðra dauðafærum. Þreyttur á að tala um það en það er staðreynd málsins. Gott flot sóknarlega, vörnin góð og þá kemur markvarslan.“
„Fannst við spila nægilega vel til að vinna Þjóðverja á þeirra heimavelli en ef við förum svona með færin þá er það erfitt.“
„Förum ekki að kenna mönnum að skjóta af sex metrum eða maður á móti markmanni. Veit ekki hvort þetta er í hausnum á okkur eða hvað, þurfum hver og einn að pæla í því. Klúðrum allir góðum færum og búnir að gera allt mótið. Vonandi kemur það í næsta leik.“

Aron var að endingu spurður hvort hann héldi að Ísland myndi enda milliriðilinn án stiga en sem stendur eru strákarnir eina liðið sem hefur ekki náð í stig.
„Næ ekki að hugsa út í það, er ógeðslega svekktur akkúrat núna. Ætlum okkur að sjálfsögðu að ná í fleiri stig. Þetta er skrítinn riðill – fáránleg úrslit í þessu móti, fáránleg og ekki fáránleg. Þurfum að mæta í næsta leik og ná í tvö stig.“