Erlent

Þing­maður segir af sér eftir búðar­hnupl

Bjarki Sigurðsson skrifar
Golriz Ghahraman var fyrst kjörin inn á þing í Nýja-Sjálandi árið 2017.
Golriz Ghahraman var fyrst kjörin inn á þing í Nýja-Sjálandi árið 2017. Getty/Fiona Goodall

Golriz Ghahraman, þingmaður Græningjaflokksins í Nýja-Sjálandi, hefur sagt af sér eftir að hún var sökuð um að stela klæðnaði úr í það minnsta tveimur tískuverslunum. Hún segir stress tengt starfi hennar hafa orðið til þess að hún fór að hnupla.

Ghahraman var fyrst kjörin inn á þing árið 2017 en hún er menntaður lögfræðingur og starfaði um tíma fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Hún fæddist í Íran og kom til Nýja-Sjálands sem flóttamaður þegar hún var níu ára gömul. Hún var fyrsti flóttamaðurinn til þess að vera kjörinn á þing í Nýja-Sjálandi. 

Fyrir tæpri viku var hún sökuð um að hafa stolið klæðnaði í tískuversluninni Scotties Boutique í borginni Auckland. Atvikið átti sér stað skömmu fyrir jól en hún steig til hliðar snemma eftir að upp komst um málið. 

„Það er mér skýrt að geðheilsa mín hefur orðið fyrir slæmum áhrifum vegna álags í starfi mínu. Það hefur orðið til þess að ég hef hagað mér allt öðruvísi en ég er í raun og veru. Ég er ekki að reyna að afsaka gjörðir mínar, en ég vil fá að útskýra þær,“ hefur The Guardian eftir Ghahraman.

Hún kveðst nú ætla að finna nýjar leiðir til þess að taka þátt í því að gera heiminn að betri stað. 

„Ég vil ekki fela mig á bak við geðheilsuvanda og ég tek fulla ábyrgð á því sem ég hef gert,“ segir Ghahraman. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×