Innlent

Hvetur fólk að tína upp flugeldarusl áður en lengra líður á árið

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Auður H. Ingólfsdóttir sviðsstjóri loftslagsmála og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun.
Auður H. Ingólfsdóttir sviðsstjóri loftslagsmála og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun. Vísir/Arnar

Flugeldarusl má enn finna víða á höfuðborgarsvæðinu. Sviðsstjóri hjá umhverfisstofnun minnir fólk á að ruslið hverfi ekki um leið og snjórinn hverfur og hvetur fólk til að tína upp eftir sig.

Hvað á fólk að gera við þetta?

„Það er með þetta eins og allan annan úrgang að við berum ábyrgð á að taka til eftir okkur. Þannig að við sem notum flugelda berum ábyrgð á að taka til ruslið eftir það,“ segir Auður H. Ingólfsdóttir, sviðsstjóri loftslagsmála og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun.

Rusl eftir skotelda má finna á víð og dreif um borgina.Vísir/Arnar

Rusl eftir flugelda, eins og tertur og rakettur, er ekki hægt að endurvinna en stjörnublysin er hægt að setja beint í málmtunnu.

„Annars er þetta almennur úrgangur en ef það eru ósprungnir flugeldar þá þarf að skila þeim í spilliefni.“

Sveitarfélögin bera ábyrgð á því að taka á móti úrgangnum.

„Þau hafa þennan farveg, þau eru með almennan úrgang og þau eru með spilliefni. Einhver hafa verið að setja upp sérgáma eða merja þá sér til að hvetja fólk til að ganga frá flugeldunum eins hratt og hægt er. Ekki geyma það fram á vorið, þá erum við með þetta allt í kring um okkur sem er auðvitað umhverfislýti.“

Hún hvetur fólk að fara út og tína upp flugeldarusl áður en lengra líður á árið.

„Það er nefnilega svolítið freistandi þegar snjór er um áramót, þá köstum við þessu frá okkur og við höldum að þetta hverfi bara. En það gerir það ekki, það kemur bara aftur þegar snjórinn bráðnar. Nú gerðist það mjög hratt og þá blasir þetta við okkur. Notum það sem hvatningu til að drífa í þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×