Úttekt MAST má rekja til þess að sunnudaginn 20. ágúst tilkynnti Arctic Sea Farm að tvö göt hefðu fundist á sjókví númer átta í Kvígindisdal. Götin voru hlið við hlið, hvort fyrir sig um 20x30 sentimetrar á stærð. Um 75 þúsund eldislaxar voru í kvínni og meðalþyngd þeirra fimm og hálft kíló.
Matvælastofnun kærði slysasleppinguna til lögreglunnar á Vestfjörðum. Helgi Jensson lögreglustjóri ákvað að hætta rannsókn þann 19. desember þar sem talið var að gögn málsins bæru ekki með sér að umbúnaður við kvínna hefði verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis Arctic Sea Farm eða að sakirnar væru miklar.
Framkvæmdastjóri Landsambands veiðifélaga hefur sagt lögreglustjóra vanhæfan í málinu.
Karl Steinar Óskarsson, sérfræðingur hjá MAST, segir í skoðunarskýrslu MAST frá 20. desember síðastliðnum að MAST hafi strax hafið rannsókn á málinu og kallað eftir köfunarskýrslum sem gætu varpað ljósi á málið.
Í ljós hafi komið að fóðrari hafði verið færður að brún kvíarinnar en ekki fjarlægður samkvæmt verklagi fyrirtækisins þegar slátrað var úr kvínni þann 8. ágúst. Hann var enn við kvínna þegar götin uppgötvuðust. Hafa tvö lóð sem hanga neðan úr fóðraranum nuddast í nótina og gert götin á kvínna.
Þá kom í ljós að ekki hafði verið viðhaft neðansjávareftirlit við kvínna í 95 daga þegar götin uppgötvuðust.
Þá kemur fram að Hafrannsóknarstofnun hafi kannað kynþroska laxa í kvínni. Hann reyndist vera 35 prósent. Á sama tíma var jafngamall fiskur frá öðrum rekstrarleyfishafa, sem fór út sem seiði á sama tíma og fiskurinn í Kvígindisdal, kannaður og reyndist kynþroski þeirra núll prósent.
Telur Karl Steinar mega leiða líkum að því að ljósastýring sem á að viðhafa samkvæmt skilyrðum um rekstrarleyfi hafi misfarist hjá Arctic Sea Farm á eldissvæðinu við Kvígindisdal.
Arctic Sea hefur til 19. janúar til að tryggja að ljósastýring sé í samræmi við skilyrði um rekstrarleyfi á öllum tímum. Þá skal Arctic Sea huga að innra verklagi, með vísan til mistaka við fóðrara, og tryggja neðansjávareftirlit á sextíu daga fresti.