Hörður tilkynnti samninginn á Facebook síðu sinni rétt í þessu. Þar segir að Jonas muni ekki einungis veita liðinu liðsstyrk með spilamennsku sinni á vellinum, hann muni sömuleiðis vera hluti af þjálfarateyminu og viðloðinn yngri flokka starf félagsins.
Yfirlýsingu Harðar í heild sinni má sjá hér fyrir neðan. Eðlilega mátti greina þar mikla spennu fyrir komu Jonasar. Birtist færslan ekki er ráð að endurhlaða síðuna.
Jonas er 29 ára gamall, reynslumikill markvörður, sem hefur spilað fjölda leikja með nokkrum af sterkustu liðum heims. Hann hóf ferilinn hjá Rhein-Neckar Löwen árið 2012, færði sig svo til svissneska liðsins Kadetten Schaffhausen árið 2013.
Hann sneri aftur heim til Þýskalands árið 2015 þegar hann gekk til liðs við Lemgo og hefur leikið þar í landi síðan. Síðast lék hann í næstefstu deild Þýskalands með liðinu DJK Rimpar.
Hörður leikur í Grill 66 deildinni, næstefstu deild á Íslandi. Þar sitja þeir í 6. sæti eftir tíu leiki með 11 stig.