Innlent

Tveir öku­menn stöðvaðir með börn í óöruggum að­stæðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti fjölbreyttum verkefnum í nótt, meðal annars í umferðinni.
Lögregla sinnti fjölbreyttum verkefnum í nótt, meðal annars í umferðinni. Vísir/Vilhelm

Tveir ökumenn voru stöðvaðir í umferðinni í gærkvöldi þar sem í ljós kom að börn voru í bifreiðunum við óöruggar aðstæður. Þá var tilkynnt um líkamsárás þar sem starfsmaður verslunar var sakaður um að hafa slegið viðskiptavin.

Lögregla stöðvaði ökumann í gær sem var grunaður um akstur undir áhrifum áfengis en hann var einnig grunaður um að hafa valdið minniháttar umferðaróhappi. 

Börn ökumannsins reyndust með honum í bifreiðinni. Hann var handtekinn en börnunum komið í hendur ættingja.

Annar ökumaður var stöðvaður og við nánari athugun kom í ljós að tvö börn voru í aftursætinu án öryggisbúnaðar, annað í fangi fullorðins einstaklings. Engar frekari upplýsingar er að finna um það atvik í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar.

Lögregla hafði afskipti af fleiri ökumönnum en einn hafði sofnað undir stýri þegar hann beið á rauðu ljósi. Sá reyndist undir áhrifum sljóvgandi efna og var óhæfur til að aka.

Lögrelga var einnig köllu til vegna líkamsárásar í verslunarkjarna þar sem starfsmaður verslunar var sakaður um að hafa slegið viðskiptavin. Þá barst tilkynning um líkamsárás í Árbæ, innbrot í geymslur í miðborginni og eignaspjöll í fjölbýlishúsi í Breiðholti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×