Þingmenn Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum hafa staðið í vegi þess að nýr aðstoðarpakki handa Úkraínumönnum verði staðfestur á þinginu, þar sem þeir eru í meirihluta í fulltrúadeildinni. Þeir vilja umfangsmiklar fjárveitingar til aukinnar öryggisgæslu á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og hert lög varðandi farand- og flóttafólk, í skiptum fyrir neyðarpakkann og eiga viðræður sér stað á þinginu.
Einnig hafa þúsundir sprengikúla sem áttu að fara til Úkraínu, farið til Ísrael á undanförnum mánuðum.
Þá hafa ríki Evrópu ekki getað staðið við loforð sín um skotfærasendingar vegna lítillar framleiðslugetu í heimsálfunni. Evrópa hefur hingað til sent Úkraínumönnum um þriðjung af þeim milljón sprengikúlum sem til stóð að senda fyrir síðasta sumar.
Sjá einnig: Herir Evrópu standa á brauðfótum eftir áratuga niðurskurð
Reuters fréttaveitan hefur eftir Oleksandr Tarnavskí að vandamálið sé stórt. Hann sagði fréttaveitunni í gær að vandamálið ætti við allar vígstöðvar í Úkraínu og að nauðsynlegt hefði verið að gera breytingar +s á aðgerðum úkraínska hersins.
Tarnavskí sagði Rússa einnig eiga í vandræðum með skotfæri en fór ekki nánar út í hvað hann ætti við með því.
Hann leiddi gagnsókn Úkraínumanna í Kherson á sínum tíma og spilaði stóra rullu í tilraunum Úkraínumanna til að brjóta varnir Rússa í Sapórisjíahéraði á bak aftur síðasta sumar og haust. Nú heldur Tarnavskí utan um varnir Úkraínumanna við Avdívka í austurhluta landsins, þar sem Rússar hafa gert umfangsmiklar og verulega kostnaðarsamar árásir á undanförnum vikum og mánuðum.
Bandaríkjamenn telja að Rússar hafi misst rúmlega þrettán þúsund hermanna í austurhluta Úkraínu frá því í október, flesta við Avdívka, og rúmlega 220 skrið- og bryndreka á sama tímabili.
Sjá einnig: Telja þúsundir Rússa hafa fallið við Avdívka
Tarnavskí segir Rússa hafa náð takmörkuðum árangri við Avdívka og sótt mest fram um tvo kílómetra við bæinn, sem hefur verið á fremstu víglínu frá 2014, þegar Rússar innlimuðu Krímskaga ólöglega og studdu aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.
Herforinginn segir Rússa reyna að nota yfirburði þeirra varðandi fjölda hermanna.
Aukin óánægja
Nærri því tvö ár eru liðin frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst. Úkraínskir hermenn segjast enn sannfærðir um að þeir muni sigra Rússa en hafa sífellt meiri áhyggjur af yfirburðum Rússa varðandi hergögn og mannafla.
Í samtali við blaðamenn AP fréttaveitunnar hafa hermenn lýst yfir óánægju með yfirmenn sína og ráðamenn.
Í Kherson-héraði, þar sem Úkraínumenn hafa náð fótfestu á austurbakka Dniproár, spyrja hermenn af hverju erfið sókn þeirra yfir ána hófst ekki fyrr í sumar, þegar kuldinn var þeim ekki jafn erfiður og hann er nú.
Jafnvel þó þá skorti skotfæri segja úkraínskir hermenn að þeir muni ekki hætt að berjast gegn Rússum.
„Ef við eigum ekki eina byssukúlu, munum við drepa þá með skóflum,“ sagði einn viðmælandi AP. Hann ítrekaði að auðvitað væru allir þreyttir á stríðinu, bæði líkamlega og andlega, en uppgjöf kæmi ekki til greina.
„Ímyndaðu þér, ef við hættum, hvað gerist næst?“
Sjá einnig: Þvinga fjölskyldur til að hlusta á nauðganir
Markmið Rússa er að sækja fram í vetur. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lýsti því nýverið yfir að enginn friður yrði í Úkraínu fyrr en markmiðum hans yrði náð. Ráðamenn á Vesturlöndum segja að markmið Pútíns sé enn að leggja alla Úkraínu undir sig.
Málpípur Pútíns í fjölmiðlum í Rússlandi hafa að undanförnu rætt opinberlega í vinsælustu umræðuþáttum landsins, hvernig Rússar eigi að refsa Úkraínumönnum fyrir mótspyrnuna þegar stríðið er unnið. Þeir tala jafnvel um það að þurfa að drepa minnst tvær milljónir Úkraínumanna til að brjóta baráttuvilja þjóðarinnar á bak aftur.