Melsungen byrjaði tímabilið í Þýskalandi frábærlega og var á toppi deildarinnar í byrjun móts. Með liðinu leika Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson en Elvar var fjarverandi í kvöld vegna meiðsla þegar liðið var í heimsókn hjá Wetzlar.
Leikurinn var afar jafn og í fyrri hálfleik munaði aldrei meira en einu marki á liðunum nema í stöðunni 2-0 fyrir Wetzlar í upphafi leiks. Heimamenn komust í 21-18 og 23-20 í síðari hálfleiknum en Melsungen tókst að jafna og lokamínúturnar voru æsispennandi.
Timo Kastening jafnaði fyrir Melsungen í 27-27 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir og þannig var staðan allt þar til á lokasekúndunum. Anadin Suljokovic í marki Wetzlar varði skot Melsungen þegar 13 sekúndur voru eftir og Lenny Rubin skoraði sigurmarkið fyrir heimamenn þegar fjórar sekúndur voru eftir. Lokatölur 28-27 og Melsungen tapar þar með dýrmætum stigum í baráttunni um efstu sætin.

Í Magdeburg var Íslendingaslagur þegar Rhein-Neckar Löwen var í heimsókn. Janus Daði Smárason, Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson voru allir í leikmannahópi Magdeburg sem og Arnór Snær Óskarsson og Ýmir Örn Gíslason hjá Ljónunum.
Skemmst er frá því að segja að um ójafnan leik var að ræða. Magdeburg tók frumkvæðið strax í byrjun og leiddi 16-13 í hálfleik eftir að hafa mest náð sex marka forskoti í fyrri hálfleik.
Í síðari hálfleik náðu gestirnir aðeins að halda aftur af heimamönnum í byrjun sem síðan stungu af. Þeir juku forskotið smátt og smátt og unnu að lokum 38-24 sigur eftir 7-1 kafla á lokamínútunum.
Janus Daði skoraði sjö mörk fyrir Magdeburg og Ómar Ingi fimm. Arnór Snær og Ýmir Örn skoruðu sitt hvort markið fyrir Rhein-Neckar Löwen.