Erlent

Segir ekki hægt að standa hlut­laus hjá þjóðarmorði

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Greta Thunberg segir samtökin FFF alltaf hafa ljáð hinum kúguðu rödd.
Greta Thunberg segir samtökin FFF alltaf hafa ljáð hinum kúguðu rödd. EPA-EFE/ANDY RAIN

Sænska loftlagsaðgerðarsinninn Greta Thunberg segist ekki ætla að þegja yfir hörmungum á Gasa ströndinni. Hún segir ekki hægt að standa hlutlaus hjá á meðan framið sé þjóðarmorð.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Gretu og stjórnarmeðlima í sænsku umhverfisverndarsamtökunum Fridays For Future (FFF), sem birtist í Aftonbladet og í Guardian. Samtökin hafa áður verið gagnrýnd fyrir að taka afstöðu í stríðinu fyrir botni Miðjarðarhafs.

„Að berjast fyrir réttlæti í loftlagsmálum snýst um að láta sig varða hag fólks og mannréttindi þeirra. Við tjáum okkur þegar fólk þjáist, er neytt til að flýja heimili sín eða er drepið, óháð málstað þess,“ segir meðal annars í greininni.

Hópurinn hafi áður gripið til samstöðuaðgerða með Sömum, Kúrdum, Úkraínumönnum og fleiri hópum í baráttu þeirra gegn kúgun. Samstaðan með Palestínumönnum falli undir sömu gildi.

Þá segir í greininni að hinir ýmsu alþjóðlegu hópar sem tengist FFF samtökunum séu sjálfstæðir. Greinin mæli fyrir skoðunum sænska hópsins. Óásættanlegt sé að verða vitni að fjölgun hatursglæpa gegn gyðingum og múslímum.

„Að krefjast þess að bundinn verði endir á óafsakanlegt ofbeldi snýst um mennsku og við skorum á alla sem geta að gera það. Að þegja er að vera samsekur. Þú getur ekki verið hlutlaus á meðan verið er að fremja þjóðarmorð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×