Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ísfélaginu, en þar kemur einnig fram að rúmlega fimmföld eftirspurn hafi verið eftir þeim hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók A og rúmlega þreföld eftirspurn var eftir hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók B.
Í tilkynningunni segir að heildarfjöldi seldra hluta hafi verið 118.923.851 hlutir og heildarsöluandvirði útboðsins numið tæplega 18 milljörðum króna.
- Í áskriftarbók A er útboðsgengi 135 kr. á hlut. Áskriftir upp að 500 þúsund krónum að kaupverði voru ekki skertar. Skerðing áskrifta var að öðru leyti hlutfallsleg.
- Í áskriftarbók B er endanlegt útboðsgengi 155 kr. á hlut. Skerðing áskrifta var í samræmi við skilmála útboðsins. Fjárfestar sem tilgreindu lægra útboðsgengi fengu ekki úthlutun.
- Seldir voru 39.667.919 eigin hlutir. Útistandandi hlutir Ísfélags í kjölfar útboðs nema 818.612.313 hlutum.
Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins, segist ánægður með viðtökurnar og segir skráninguna styrkja áframhaldandi vöxt fyrirtækisins.
„Við erum hæstánægð með mjög góðar viðtökur í útboði Ísfélagsins sem endurspegla trú fjárfesta á bæði félagið og sjávarútveginn. Við bjóðum fjölbreyttan hóp hluthafa velkominn. Staða Ísfélagsins er afar traust og skráning á Aðalmarkað Kauphallarinnar eflir það enn frekar. Skráningin styrkir áframhaldandi vöxt og getu félagsins til sóknar og til að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem það stendur frammi fyrir,“ segir hann.
Í tilkynningu Ísfélagsins segir að fjárfestum verði tilkynnt um úthlutun í útboðinu eigi síðar en fjórða desember. Gjalddagi áskriftarloforða er sjötta desember næstkomandi og er ráðgert að afhending hinna nýju hluta til fjárfesta fari fram þann áttunda sama mánaðar.