Eiríkur Valberg, lögreglufulltrúi hjá miðlægri deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Maðurinn lést um kvöldmatarleytið í gærkvöldi.
Að sögn Eiríks er rannsókn lögreglu á upptökum brunans vel á veg komin. Hann segir að ekki verði veittar frekari upplýsingar um hana að svo stöddu. Von sé á tilkynningu lögreglu vegna málsins.
Stefán Kristinsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við fréttastofu á sunnudagsmorgun að útlitið hefði ekki verið gott þegar slökkviliði barst tilkynning um brunann. Þegar slökkvilið mætti á staðinn hafði fjöldi fólks komist út úr húsnæðinu.
Til rannsóknar er hvort að kviknað hafi í út frá þurrkara í eldhúsi hússins. Altjón varð á efri hæð hússins í brunanum en húsið var ekki samþykkt íbúðarhúsnæði. Sex manns bjuggu á efri hæðinni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Fréttin hefur verið uppfærð.