Forsvarsmenn verkalýðsfélaga í Grindavík segja lífeyrissjóðina bjóða Grindvíkingum verri kjör en bankar og íbúðalánasjóður. Vegna þess ætla þeir að hvetja til og mótmæla við skrifstofur stærstu lífeyrissjóða landsins „á meðan þeir ganga ekki í takti við fólkið sem greiðir í sjóðina“.
Í sameiginlegri tilkynningu frá Verkalýðsfélagi Grindavíkur og Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur segir að lífeyrissjóðirnir hafi boðið upp á frystingu lána sem sé úrræði sem éti upp eigið fé lántaka á meðan frystingunni stendur.
Þeir segja stjórnendur fela sig bak við lagaumhverfi og að atvinnurekendur, sem sumir sitji í stjórnum þessara sjóða, berjist gegn því að sjóðirnir bjóði upp á sömu kjör og aðrar fjármálastofnanir.
„Svo virðist sem um sé að ræða um 100 húsnæðislán sem Grindvíkingar hafa hjá lífeyrissjóðum landsins – lán þar sem ekkert er hægt að gefa eftir. Það sem veldur kannski mestum vonbrigðum er að grindvískir atvinnurekendur, sem margir hverjir eru stórir aðilar, virðast ekki vera reiðubúnir til að setja þrýsting um úrlausn mála á sitt fólk í stjórnum sjóðanna,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir að það fólk sem hafi tekið slík lán hjá lífeyrissjóðunum sé reitt og viti ekki hvernig það eigi að leysa úr stöðunni.
„Í enn eitt skiptið sýna lífeyrissjóðirnir okkur, með háttalagi sínu, að þeir hugsa ekki um heildarhagsmuni heldur fyrst og fremst um skoðanir fyrirtækjaeigenda. Enn einu sinni renna þeir stoðum undir þá skoðun launafólks að þeim sé ekki treystandi til að sýsla með sjóðina okkar. Atvinnurekendur þurfa að fara út úr stjórnum lífeyrissjóðanna. Það er auðvitað mikilvægt að hugsað sé um ávöxtun þessara sjóða, en einnig þarf að hugsa um samfélagslegt hlutverk þeirra,“ segir í bréfinu.