Glæpasagnahátíðin Iceland Noir, sem fór fram síðastliðna viku, hefur fengið á sig harða gagnrýni vegna viðburðar sem Clinton kemur fram á. Sjötíu rithöfundar hvöttu til sniðgöngu hátíðarinnar vegna viðburðarins. Clinton hefur verið gagnrýnd fyrir afstöðu sína gegn vopnahléi á Gasa.
Á meðan Clinton kynnti bókina State of Terror ásamt Louise Penny, meðhöfundi sínum, í Eldborgarsal Hörpu fóru fram mótmæli fyrir utan salinn. Þátttakendur lögðust hreyfingarlaus á gólfið sveipaðir hvítum lökum. Einhver þeirra voru með rauðum málningarslettum, og ætlunin væntanlega sú að líkja eftir líkum þeirra sem hafa látist í árásum Ísraels á Gasa að undanförnu, en sami gjörningur var framkvæmdur í Kringlunni í vikunni.
Skömmu áður en viðburðurinn hófst stóðu tvær konur upp, flögguðu palestínska fánanum og gengu út úr salnum í mótmælaskyni. Myndskeið af því má sjá hér að neðan.