Ekkert vatn er á al-Shifa spítalanum, matur eða rafmagn. Tvö börn eru sögð látin í kjölfar þess að rafmagn fór af, eitt var í öndunarvél og annað í hitakassa. Læknar spítalans segja 20 börn til viðbótar í viðkvæmri stöðu sem voru í meðferð á nýburadeild spítalans.
Ísraelar hafa lýst því yfir að hægt verði að flytja börnin á annan spítala síðar í dag. Talsmaður ísraelska hersins sagði spítalann hafa óskað eftir aðstoð og að Ísraelsher myndi veita þeim hana.
Á vef BBC segir að þeim hafi verið sendar myndir af 20 nýburum á skurðstofu en þau voru flutt þangað eftir að rafmagn fór af bráðamóttöku nýburadeildarinnar. Samtök lækna á svæðinu hafa varað við því að ef ekkert verði gert geti 37 nýburar til viðbótar dáið.
Þá kemur einnig fram á vref BBC að frásagnir frá fólki á spítalanum séu hryllilegar. Þar sé reglulega slegist, sjúklingar sem hafi farið í aðgerð geti ekki farið og að lík þeirra sem látin eru hlaðist upp án þess að hægt sé að jarða þau. Eftir að rafmagn fór af kælum þar sem líkin eru geymd óttast læknar um smit og sjúkdóma.
Hamas vinni undir spítalanum
Þúsundir hafa leitað skjóls í spítalanum en þar hafa geisað hörð átök síðustu tvo daga. Ísraelsher hefur ítrekað sakað Hamas um starfrækja höfuðstöðvar sínar undir spítalanum, en Hamas segir það ekki rétt. Alþjóðleg mannréttindasamtök hafa mörg fordæmt átökin á og við spítalann.
.@WHO has lost communication with its contacts in Al-Shifa Hospital in northern Gaza. As horrifying reports of the hospital facing repeated attacks continue to emerge, we assume our contacts joined tens of thousands of displaced people and are fleeing the area. pic.twitter.com/SouW2W3cad
— WHO Regional Office for the Eastern Mediterranean (@WHOEMRO) November 12, 2023
Átökin á Gasa hafa nú geisað í meira en mánuð. Allt frá því að Hamas réðst inn í Ísrael, myrti um 1.200 manns og tók 200 gísla. Frá þeim tíma hefur Ísraelsher myrt um 11 þúsund almenna borgara í Palestínu í árásum sínum. Um helmingur þeirra sem látin eru á Gasa eru börn.
Ekkert vopnahlé án þess að gíslum sé sleppt
Netanyahu hefur hingað til ekki viljað samþykkja vopnahlé nema að öllum 239 gíslum Hamas sé sleppt en hann ítrekaði það í ávarpi í sjónvarpi í gær.
„Stríðið gegn Hamas heldur áfram af fullum krafti, og það er aðeins eitt markmið, að vinna. Það er enginn annar valmöguleiki en að sigra,“ sagði hann í ávarpi sínu.