Íslenski boltinn

Stjarnan kynnir nýtt þjálfara­t­eymi: Björn Berg úr takka­skónum í þjálfara­úlpuna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þjálfarateymi Stjörnunnar fyrir komandi tímabil.
Þjálfarateymi Stjörnunnar fyrir komandi tímabil. Stjarnan

Stjarnan tilkynnti í kvöld þjálfarateymi liðsins fyrir komandi tímabil í Bestu deild karla í knattspyrnu. Björn Berg Bryde fer úr takkaskónum og tekur að sér starf aðstoðarþjálfara. Þá er Elías Hlynur Lárusson kominn frá Íslands- og bikarmeisturum Víkings.

Björn Berg hefur spilað með Stjörnunni undanfarin ár en virðist nú hafa lagt skóna á hilluna og tekið upp þjálfaraúlpuna.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að koma inn í frábært þjálfarateymi Stjörnunnar Auðvitað erfið ákvörðun að stíga út úr leikmannahópnum eftir öll þessi ár en ég hef fundið fyrir miklum stuðningi innan Stjörnunnar sem spilaði stóran þátt í þessari ákvörðun,“ segir Björn Berg og heldur áfram.

„Að mínu viti erum við með einstakan hóp í höndunum sem getur farið enn lengra. Það er mikil vinna framundan en ég er fullviss um það að við séum með leikmannahópinn, þjálfarana, umgjörðina, stjórnina og að sjálfsögðu stuðningsfólkið til að taka næsta skref. Ég hlakka mikið til að hefjast handa og hjálpa félaginu að komast á þann stað sem það á heima.“

Hinn ungi Elías Hlynur var yfirþjálfari barna- og unglingaráðs hjá Víking og færir sig því úr Fossvoginum í Garðabæinn.

„Elías er jákvæður, orkumikill og sýnir mikið frumkvæði og ég er mjög ánægður að fá hann inn í umhverfið okkar. Hann mun styrkja okkur og nær vonandi að bæta sjálfan sig í leiðinni,“ sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, um nýjan aðstoðarþjálfara félagsins.

Stjarnan endaði í 3. sæti Bestu deildar karla á síðustu leiktíð og leikur því í Evrópu á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×