Í tilkynningu segir að Kvenréttindafélagið sé með elstu félagasamtökum landsins, verið stofnað af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur árið 1907 og vinnur að kvenréttindum og jafnri stöðu allra kynja á öllum sviðum samfélagsins, þar með talið í atvinnulífi, stjórnmálum og fjölmiðlum.
„Félagið leggur áherslu á mannréttindi og vinnur gegn hvers konar mismunun með femínísk gildi að leiðarljósi.
Auður hefur doktorspróf í lífefnafræði frá Stokkhólmsháskóla og hefur unnið við rannsóknir og stjórnun. Hún gengdi stöðu framkvæmdastjóra Landverndar í fimm og hálft ár þar til hún hóf störf hjá Kvenréttindafélaginu og er því vel að sér í rekstri félagasamtaka. Hún er einnig stofnandi og fyrsti formaður Samtaka kvenna í vísindum og þekkir jafnréttismál vel,“ segir í tilkynningunni.
Haft eftir Tatjönu Latinovic, formanni stjórnar Kvenréttindafélags Íslands, að hún sé spennt fyrir að fá Auði til starfa. „Auður hefur mikla reynslu í stefnumótun, áætlanagerð, miðlun og samskiptum við fjölmiðla. Reynsla hennar og þekking á starfsemi grasrótasamtaka mun koma að góðum notum fyrir frekari uppbyggingu á starfsemi Kvenréttindafélagsins og ég er mjög spennt fyrir samstarfinu,” segir Tatjana.