Íslenski boltinn

Pablo um samninginn hjá KR á sínum tíma: „Ég hló, stóð upp og fór“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pablo Punyed kann vel við sig í Víkinni og sér ekki eftir að hafa farið þangað.
Pablo Punyed kann vel við sig í Víkinni og sér ekki eftir að hafa farið þangað. Vísir/Hulda Margrét

Pablo Punyed, miðjumaður Íslands- og bikarmeistara Víkings, var gestur í hlaðvarpinu Gula Spjaldið. Þar fór hann yfir brotthvarf sitt frá KR árið 2020 en honum stóð til boða að vera áfram í Vesturbænum fyrir aðeins brot af þeim launum sem hann var á.

Pablo gekk í raðir Víkings frá KR árið 2020 og segja má að þau vistaskipti hafi reynst Víkingum og Pablo einstaklega vel enda liðið tvívegis orðið Íslandsmeistari síðan þá og bikarmeistari þrívegis.

Pablo gaf til kynna á sínum tíma að hann hefði farið frá KR þar sem félagið hefði verið í fjárhagsvandræðum. Hann hamraði þann punkt virkilega inn í Gula spjaldinu.

„Það tók ný stjórn við hjá KR rétt fyrir kórónuveirufaraldurinn, sama stjórn og er núna. Þeir breyttu öllu og hafa strögglað hingað til. Stjórnin bauð mér samning þegar hann var að renna út, buðu mér fimmtán prósent af þeim launum sem ég var að þéna,“ sagði miðjumaðurinn knái og hélt áfram.

„Þarna var ég búinn að taka á mig 65 prósent launalækkun út af Covid-19. Hélt – því ég var búinn að hjálpa félaginu – að það myndi reyna að hjálpa mér líka. Stjórnin bauð mér 15 prósent af því sem ég var með. Ég hló, stóð upp og fór. Þeir voru með Excel-skjal með minni tölfræði og fannst ég vera þetta mikils metinn,“ bætti hann við.

Pablo sagðist hafa talað við Rúnar Kristinsson, þáverandi þjálfara, sem sagði einfaldlega að þetta væri ekki í hans höndum.

Pablo þekkti til Arnars Gunnlaugssonar þar sem konur þeirra eru æskuvinkonur. Það var því aldrei spurning að semja við Víkinga og sér Pablo ekki eftir því í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×