„Ja, það er ekkert á mælanetinu sem bendir til þess að það sé að byrja eldgos,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur í samtali við fréttastofu.
Rætt var við Benedikt í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld en eins og fram hefur komið hefur verið lýst yfir óvissustigi almannavarna á Reykjanesskaga vegna jarðskjálftahrinu. Síðast mældist skjálfti 3,6 að stærð við Grindavík í kvöld.
„Raunar sýna aflögunargögn að það er ólíklegt að þarna sé um kviku að ræða. Það er engin aflögun tengd þessu og þá er mjög erfitt að álykta að þetta sé kvikutengt.“
Þið getið ekkert sagt til um á hversu miklu dýpi kvikan er?
„Við sjáum engin merki um kvikuhreyfingar í tengslum við þessa hrinu. Þannig að þetta er líklega triggeruð virkni vegna landrissins sem er undir Fagradalsfjalli,“ segir Benedikt.
„Þar er kvika, líklega á 13-17 kílómetra dýpi að safnast fyrir og valda þenslu, víðáttumikilli þenslu sem sést um mest allt Reykjanesið og þetta veldur spennubreytingum, um allt Reykjanesið og það er líklega það sem er að triggera þessa virkni sem er núna. Mjög líklegt ef þetta heldur áfram að þá verði meiri skjálftavirkni á Reykjanesinu.“
Áttu von á stærri skjálftum?
„Við getum ekkert sagt um það hvort það verði stærri skjálftar, það er ekkert hægt að spá fyrir um það en áframhaldandi landris þarna við Fagradalsfjall er líklega að fara að valda meiri skjálftavirkni á Reykjanesinu.“
Lengi skjálftar í Bárðarbungu
Um skjálfta í Bárðarbungu, þar sem mældist skjálfti af stærðinni 4,9 í gærkvöldi, segir Benedikt að ekkert nýtt sé að frétta þaðan. Slík virkni hafi verið undanfarin ár.
„Það hafa verið af og til stórir skjálftar síðan að Holuhraunsgosinu lauk. Þetta tengist kvikusöfnun undir Bárðarbungu en hún hefur verið í gangi síðan áður en gosi lauk. Þetta er framhald af því. Við getum í rauninni ekkert sagt um meir en það. Á sjöunda áratugnum voru til dæmis oft stórir skjálftar í Bárðarbungu og það liðu áratugir þar til að gaus. Þannig að þetta segir okkur ekkert mikið um einhvern aðdraganda alveg strax en bara hluti af þessu ferli.“