Fótbolti

Hrósað fyrir að bjarga mótherja frá meiðslum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snarræði Fernandos Muslera bjargaði Valentin Rosier líklega frá meiðslum.
Snarræði Fernandos Muslera bjargaði Valentin Rosier líklega frá meiðslum.

Markverði Galatasaray hefur verið hrósað fyrir að bjarga leikmanni Besiktas frá mögulegum meiðslum.

Í leik liðanna í tyrknesku úrvalsdeildinni um helgina átti Ante Rebic, leikmaður Besiktas, fyrirgjöf sem var ætluð Valentin Rosier sem var á fjærstönginni.

Rosier renndi sér en náði ekki til boltans. Hann var svo við það að renna á stöngina en Fernando Muslera, markvörður Galatasaray, var snöggur að hugsa og ýtti Rosier til hliðar og kom í veg fyrir að hann rækist á stöngina. 

Atvikið vakti mikla athygli enda bjargaði Muslera Rosier mögulega frá slæmum meiðslum.

Muslera og félagar unnu leikinn gegn Besiktas, 2-1. Galatasaray er með átta stiga forskot á toppi tyrknesku úrvalsdeildarinnar en Besiktas er í 3. sætinu.

Hinn úrúgvæski Muslera hefur leikið með Galatasaray frá 2011. Hann hefur sex sinnum orðið tyrkneskur meistari með liðinu og fjórum sinnum bikarmeistari.

Rosier, sem er 27 ára franskur hægri bakvörður, hefur leikið með Besiktas frá 2020. Hann kom fyrst á láni frá Sporting í Portúgal en Besiktas keypti hann svo eftir eitt tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×