Tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson hefur afboðað sig í vinnu á veitingastaðnum Önnu Jónu á morgun. Eigandi veitingastaðarins Haraldur Þorleifsson hafði fengið nokkra karlmenn til að þjóna á staðnum á meðan verkfall kvenna og kvára fer fram. Með því að fá karlmenn til starfa væri hægt að halda staðnum opnum.
Jón hafði boðað komu sína en tilkynnti svo á Facebook fyrir stuttu að það hafi svo komið á daginn að hann þurfi að sinna börnum sínum.
„Enda margra barna faðir eins og alkunna er. Eftir á að hyggja var þessi hugmynd ekkert endilega alveg eins frábær og man ætlaði,“ segir Jón, á Facebook, og að hann hafi tilkynnt Haraldi um þessa breytingu.
Uppbókað er á staðinn á morgun en þeir karlmenn sem hafa boðað komu sína á veitingastaðinn Önnu Jónu á morgun eru þeir Ari Eldjárn, Sigurður Guðmundsson, Unnsteinn Manuel, Sigtryggur Baldursson, Bragi Valdimar, Haraldur Þorleifsson, Einar Örn, Gunnar Hansson, Jón Gnarr og Högni Egilsson.