Þetta kemur fram í fundargerð Peningastefnunefndarinnar sem birt var í dag. Þar segir að þeir sem greiddu atkvæði með tillögu um að halda vöxtum óbreyttum voru Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu og Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika.
Þá segir að Ásgerður Ósk Pétursdóttir lektor hafi einnig stutt tillöguna en að hún hefði fremur kosið að hækka þá um 0,25 prósentur. Þá hafi Herdís Steingrímsdóttir dósent greitt atkvæði gegn tillögunni og viljað hækka vexti um 0,25 prósentur.
Nefndin tilkynnti ákvörðun sína um að halda stýrivöxtum óbreyttum 4. október síðastliðinn. Ákvörðunin kom nokkuð á óvart enda höfðu greiningadeildir bankanna spáð því að vextir yrðu hækkaðir enn á ný eftir rúmlega tveggja ára vaxtahækkunarferli.