Viðskipti innlent

Bjarni Þór og Sæunn til Heim­kaupa

Atli Ísleifsson skrifar
Sæunn Viggósdóttir og Bjarni Þór Logason.
Sæunn Viggósdóttir og Bjarni Þór Logason. Aðsend

Bjarni Þór Logason hefur verið ráðinn innkaupastjóri Heimkaupa og Sæunn Viggósdóttir mannauðsstjóri.

Í tilkynningu segir að Bjarni Þór hafi starfað á matvælamarkaði í um tvo áratugi. 

„Síðustu ár hefur hann stýrt eigin rekstri en áður starfaði hann sem rekstrarstjóri hjá heildversluninni Rolf Johansen Co. Hann var einnig rekstrarstjóri hjá Líflandi og síðar í sama hlutverki hjá Ölgerðinni. Fyrsta stjórnunarstaðan Bjarna á matvælamarkaði var sem sölustjóri hjá Hagkaup þar sem hann var í fimm ár.

Bjarni er hefur lokið BA í viðskiptafræði auk þess að hafa lagt stund á nám í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Sæunn sem tók nýverið við stöðu mannauðsstjóra en starfaði áður á sviði fjármála og mannauðsmála hjá Heimkaupum. Sæunn starfaði í sextán ár innan íþróttahreyfingarinnar við fjölbreytt störf m.a. á sviði mannauðsmála. Hún hóf störf hjá hreyfingunni sem íþróttafulltrúi og síðar sem yfirþjálfari hjá Ármanni. Hjá Fimleikasambandi Ísland var hún fjármálastjóri og síðar í hlutverki afreksstjóra og hélt hún meðal annars utan um verkefni tengdum landsliðinu í fimleikum.

Sæunn er með B.A. í félagsráðgjöf og M.S. í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði frá Háskólanum í Reykjavík auk þess að vera með alþjóðleg dómararéttindi í fimleikum,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×