„Það er óneitanlega skrítið að hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma skuli sitja fyrir svörum fjármála-og efnahagsráðherra sem hefur ekkert um fjármál ríkisins til framtíðar að segja því hann er að yfirgefa embættið eins og þekkt er,“ sagði Sigmar Guðmundsson varaformaður þingflokks Viðreisnar á Alþingi í dag.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður þingflokks Vinstri grænna, tók til varnar Bjarna Benediktssyni í ræðustól.
„Þingmaður Sigmar Guðmundsson spurði hér út í það í gær hvort að ráðherrann hæstvirtur yrði hér til svara, forsetinn sagði já. Við það gerði enginn aðra athugasemd. Það hefði verið hægt að gera það af því að fólk teldi hann umboðslausan en það gerðu háttvirtir þingmenn stjórnarandstöðunnar ekki,“ sagði Bjarkey.
Halldóra Mogensen þingmaður Pírata sagði undir sama lið:
„Hann á að vera hættur í þessu embætti, af hverju er hann hérna? Hvað er hann að fara að svara eða tala um? Þetta er svo skammsýnt og asnalegt og grefur undan trausti fólks á lýðræðinu,“ sagði Halldóra.
Breytingar liggja fyrir
Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks sagði þennan málflutning vekja furðu.
„Það er með ólíkindum að fylgjast hér með stjórnarandstöðunni og vanlíðan þeirra í þessu máli og ber merki hvað málefnagrundvöllur flokkanna er grunnur. Það verða breytingar gerðar á ríkisstjórninni það liggur alveg fyrir,“sagði Jón.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar gagnrýndi veru Bjarna í þingsal.
„Rúmur sólarhringur var liðinn frá því að fjármálaráðherra greindi auðmjúkur frá afsögn sinni vegna lögbrota. Þegar nánast allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa mótmælt niðurstöðu umboðsmanns, sólarhrings- auðmýktinni var lokið og nú er fjármálaráðherra mættur hér í þingsal eins og ekkert sé,“ sagði Þorbjörg.
Ríkisráðsfundur um helgina
Bjarni Benediktsson sem er fjármálaráðherra þar til á ríkisráðsfundi sem verður að öllum líkindum um helgina, fékk svo enga spurningu frá stjórnarandstöðunni þegar kom að liðnum óundirbúnar fyrirspurnir.
Inga Sæland formaður Flokks fólksins sagði eftir fundinn í dag að stjórnarandstaðan væri með þessu útspili að krefjast kosninga.
„Þetta er aðferðarfræði til að sýna vandlætingu á fráfarandi fjármálaráðherra og ég held að þarna sé meira verið að meina, vanhæf ríkisstjórn og við viljum kosningar,“ segir Inga
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tók hressilega til orða sinna um þetta útspil stjórnarandstöðunnar í morgun.
„Þetta er ótrúlegur aumingjaskapur finnst mér að þora ekki í fyrirspurnir um þetta mál sem þau tjá sig talsvert um á öðrum vettvangi,“ sagði Hildur.