Lífið

Skammaðist sín fyrir mömmu sína og upp­lifði sig eina

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sigríður Gísladóttir hefur bæði verið aðstandandi einstaklings með andleg veikindi og einnig glímt sjálf við slík veikindi.
Sigríður Gísladóttir hefur bæði verið aðstandandi einstaklings með andleg veikindi og einnig glímt sjálf við slík veikindi.

Sig­ríður Gísla­dóttir, for­maður Geð­hjálpar og fram­kvæmda­stjóri Okkar heims, segist hafa skammast sín fyrir and­leg veikindi móður sinnar þegar hún var lítil. Hún segir börn upp­lifa sig ein í slíkum að­stæðum þó rann­sóknir sýni að fimmta hvert barn sé í slíkum að­stæðum.

Sig­ríður er annar við­mælandi Lands­sam­taka Geð­hjálpar í októ­ber­mánuði þar sem sam­tökin standa fyrir vitundar­vakningu um geð­heil­brigðis­mál. Hún segir geð­rænan vanda hafa litað líf sitt, sjálf hafi hún barist við slík veikindi og átt móður í sömu sporum.

Klippa: Sigríður Gísladóttir - Landssamtökin Geðhjálp

Mark­mið á­taks Lands­­sam­­taka Geð­hjálpar er að skapa vett­vang fyrir fólk til að segja sína skoðun á því hvað það telur mikil­­vægast til að bæta geð­heilsu og geð­heil­brigðis­­mál á Ís­landi. Tekin voru við­töl við þrjá ein­stak­linga með mis­munandi reynslu af geð­heil­brigðis­­kerfinu: notandi, að­standandi og starfs­­maður.

„Við hvetjum al­­menning til að taka þátt og segja sína skoðun með því að fara á www.geð­heil­brigdi.is og koma þar á fram­­færi hvað beri að setja í for­­gang í geð­heil­brigðis­­málum á Ís­landi.“

Litaði lífið

„Geð­rænn vandi er eitt­hvað sem hefur litað líf mitt. Í rauninni mest af því sem hefur verið í mínu lífi. Mamma mín hefur barist við og barðist við geð­ræn veikindi frá því að ég man eftir mér, þannig að þetta er bara eitt­hvað sem ég ólst upp við og þekkti í rauninni ekkert annað.“

Sig­ríður segir að sín eigin veikindi hafi farið að láta á sér kræla þegar hún var sau­tján ára. Þau hafi verið stig­vaxandi.

„Og ég barðist við al­var­lega átröskun í fimm ár. Þannig að það má segja að þetta hafi litað líf mitt og kannski líka tæki­færi mín sem barn og ung­menni.“

Upplifði gríðarlega skömm

Sig­ríður segir að það sé allur gangur á því hvernig það er að vera barn og eiga for­eldra sem glími við geð­rænan vanda. Vandinn geti verið þungur eða léttari og á því sé allur gangur.

„Mín upp­lifun var sú að þetta var mjög erfitt. Þetta var þungur vandi og litaði allt mitt til­finninga­líf. Ég upp­lifði alveg gríðar­lega skömm af því að eiga for­eldri sem var að glíma við þessi veikindi,“ segir Sig­ríður.

Hún tekur fram að það hafi ekki verið af því að sér fyndist eitt­hvað per­sónu­lega af því. Þar hafi um­hverfið, bíó­myndir, skólinn og það hvernig talað er um fólk sem glímir við geð­ræn veikindi og geð­rænar á­skoranir haft á­hrif.

„Þannig að ég var rosa­lega lituð af því og hugsaði að þetta væri ekki eitt­hvað sem ég segi. Þetta er skammar­legt. Mamma er þá ekki jafn flott ef ég segi frá þessu. Það er þessi djúpa skömm sem lifir með manni langt fram á full­orðins­árin sem maður þarf alveg að opna eins og lauk til að reyna að fara inn í kjarnann á þessari skömm.“

Eins og hún væri eina barnið í þessum aðstæðum

Sig­ríður segir skömmina hafa verið ein­kennandi fyrir sitt líf sem barn. Hún hafi verið alveg gífur­lega ein­mana.

„Af því að ég upp­lifði mig svo rosa­lega eina í heiminum með þetta vanda­mál. Ég upp­lifði að það væru engin önnur börn í kringum mig sem eru í þessari stöðu. Af hverju er ég eina barnið?“

Sig­ríður segir rann­sóknir sýna að það sé ein­mitt það sem börn upp­lifi í slíkri stöðu. Enda sé ekki talað um and­leg veikindi.

„Það er ekki talað um þetta í skólanum. Samt hafa al­þjóð­legar rann­sóknir sýnt að yfir­leitt er þetta eitt af hverjum fimm börnum sem eiga for­eldra sem glíma við geð­rænan vanda, þannig að þetta er mjög al­gengt. En það er ekki talað um þetta og þá hugsar maður: Ég er eina barnið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.