Flugtakið frá Keflavík var klukkan 10.22. Flugtími til Amman í Jórdaníu er áætlaður um sex klukkustundir. Lending á Queen Alia-alþjóðaflugvellinum í Amman er áætluð klukkan 19.23 að staðartíma, eða klukkan 16.23 að íslenskum tíma, samkvæmt flugratsjársíðunni Flightradar 24.
Flugleggurinn milli Keflavíkur og Amman er um 5.400 kílómetrar. Flugdrægi 757-þotunnar er allt að 6.300 kílómetrar þannig að hún ætti að komast á milli staðanna án millilendingar.

Í frétt utanríkisráðuneytisins í morgun kom fram að um 120 manna hópur Íslendinga í Ísrael, sem til stóð að yrði sóttur til Tel Aviv, yrði fluttur til Amman í Jórdaníu, þaðan sem hópnum yrði flogið aftur heim til Íslands. Icelandair ákvað í gær að lenda ekki á flugvellinum í Tel Aviv vegna nýs öryggismats.
Áætlað var að Íslendingahópurinn legði af stað frá Jerúsalem áleiðis til Amman um hálfníuleytið í morgun og er stefnt að því að flogið verði þaðan til Íslands í kvöld.