Innlent

Fyrsta skóflu­stungan tekin við Grens­ás

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mikil gleði var í loftinu þegar skóflustungan var tekin.
Mikil gleði var í loftinu þegar skóflustungan var tekin. Eva Björk

Heil­brigðis­ráð­herra, Willum Þór Þórs­son, tók í dag fyrstu skóflu­stunguna að nýrri við­byggingu við Grens­ás­deild Land­spítala. Deildin er endur­hæfingar­deild Land­spítala en þangað koma sjúk­lingar til endur­hæfingar eftir að hafa lokið með­ferð á öðrum deildum spítalans.

Auk ráð­herra tóku skóflu­stunguna Runólfur Páls­son for­stjóri Land­spítala, Svava Magnús­dóttir full­trúi Holl­vina Grens­ás­deildar, Arnar Helgi Lárus­son for­maður SEM sam­takanna svo og starfs­menn Grens­ás­deildar þær Guð­björg Efemía Magnús­dóttir og Ei­ríksína Kr. Haf­steins­dóttir.

„Ég er viss um að þessi lang­þráða við­bót við Grens­ás­deildina eigi eftir að reynast starf­seminni vel. Í allri heildar­upp­byggingu Land­spítalans er nauð­syn­legt að halda því til haga að það er verið að fjár­festa í steypu, veggjum og öðrum inn­viðum til þess eins að skapa góðar að­stæður fyrir fólkið innan veggjanna. Við erum því fyrst og fremst að fjár­festa í fólki og byggja undir á­fram­haldandi öfluga heil­brigðis­þjónustu,“ segir Willum Þór.

Forstjóri Landspítalans og heilbrigðisráðherra á leið til skóflustungu.Eva Björk

Fyrsta verk­efnið utan Hring­brautar

Haft er eftir Gunnari Svavars­syni, fram­kvæmda­stjóra Nýs Land­spitala að verk­efnið við Grens­ás sé eitt af fjöl­mörgum sem Nýr Land­spítali ohf. sinni og það fyrsta sem fé­lagið sinnir utan fram­kvæmda­girðingarinnar á Hring­braut.

„Nú þegar hönnun er langt komin og jarð­vinna er að hefjast þá tekst NLSH á við nýjar á­skoranir að byggja í þegar byggðu hverfi. Um­hverfis- og öryggis­málin eru alltaf hjá fé­laginu í önd­vegi og munu verða það í þessu verk­efni líka. Mark­miðið er að verk­legar fram­kvæmdir séu unnar í sátt við allt og alla,“ segir Gunnar.

Viðbyggingin verður 4.400 fermetrar að stærð.

„Þörfin fyrir sér­hæfða endur­hæfingar­þjónustu hefur aukist í takt við fjölgun íbúa. Það er öllum ljóst sem til þekkja að hús­næði Grens­ás­deildar, sem lítið hefur verið endur­nýjað frá því deildin var opnuð fyrir 50 árum, mætir engan veginn kröfum sam­tímans,“ segir Runólfur Páls­son, for­stjóri Land­spítala.

„Því er sér­lega á­nægju­legt að loks hilli undir að reist verði við­bygging sem mun valda straum­hvörfum því hún verður sér­sniðin fyrir nýtingu á nýjustu þekkingu og tækni á sviði sér­hæfðs þjálfunar­búnaðar og hjálpar­tækja í endur­hæfingar­með­ferð en mikil fram­þróun á því sviði hefur átt sér stað á undan­förnum árum. Það kostar mikla fjár­muni að koma upp sér­hæfðum þjálfunar­búnaði. Við á Land­spítala erum því afar þakk­lát fyrir söfnunar­á­tak Holl­vina Grens­áss og vonum að lands­menn sýni okkur stuðning.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×