Íslenski boltinn

Vil­hjálmur bað HK-inga af­sökunar: „Gefur okkur bara svo rosa­lega lítið“

Aron Guðmundsson skrifar
Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK og Vilhjálmur Alvar fótboltadómari
Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK og Vilhjálmur Alvar fótboltadómari Vísir/Samsett mynd

Fót­bolta­dómarinn Vil­hjálmur Alvar Þórarins­son bað HK-inga af­sökunar á á­kvörðun sem hann tók í leik liðsins gegn Fram í Bestu deildinni á dögunun. Af­sökunar­beiðnin kom skömmu fyrir leik HK í gær sem Vil­hjálmur dæmdi. Þjálfari HK telur hann hafa gert önnur af­drifa­rík mis­tök í þeim leik.

„Ég veit ekki hvað mér finnst um þetta. Auð­vitað sjáum við þetta gert ein­staka sinnum úti í heimi. Þar sem að ein­hver kemur fyrir hönd dómaranna og biðst af­sökunar. Ég er nú stuðnings­maður Liver­pool og það var nú að­eins verið að biðjast af­sökunar í tengslum við leik minna manna í Eng­landi um helgina,“ segir Ómar Ingi Guð­munds­son, þjálfari HK, um af­sökunar­beiðnina sem hann fékk frá dómaranum Vil­hjálmi Al­vari fyrir leik HK gegn ÍBV í gær.

„Hann ræddi þetta við ein­hverja úr leik­manna­hópnum hjá okkur en kom svo til okkar í þjálfara­t­eyminu. Þjálfara­ferill minn á þessu stigi er ekki langur og ég veit ekki hvort svona tíðkast yfir höfuð. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem dómari biðst af­sökunar á mis­tökum. Ekki við mig og pott­þétt ekki við aðra. Þetta gefur okkur bara svo rosa­lega lítið.

At­vikið sem Vil­hjálmur Alvar baðst af­sökunar á fyrir leik HK og ÍBV kom í leik HK gegn Fram í þar síðustu um­ferð þegar að um­deild víta­spyrna var dæmd undir lok leiks.

„Þetta gerist í stöðunni 2-1 fyrir okkur. Það er lítið eftir af leiknum og hann dæmir víta­spyrnu þegar, að mínu mati, brotið á sér nokkuð aug­ljós­lega stað fyrir utan víta­teig.“

Framarar skoruðu úr vítinu og tryggðu sér því dýr­mætt eitt stig. 

„Þetta gefur okkur því aug­ljós­lega ekki það sama og ef víta­spyrnan hefði bara verið rétt dæmd. Ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast um þetta. Auð­vitað tók ég af­sökunar­beiðnina bara gilda, það er ekkert annað hægt að gera. En ég hefði haldið að til­finningin, þegar að þú ert ný­búinn að gera af­drifa­rík mis­tök, yrði að vera á þá leið að þú þyrftir að vera 100% viss þegar að þú tekur svona stóra á­kvörðun.“

„Trúi því ekki að hann hafi verið 100% viss í sinni sök“

Á Ómar Ingi þar við á­kvörðun Vil­hjálms Al­vars í leik HK og ÍBV í gær, leikinn sem átti sér stað eftir að hann hafði beðist af­sökunar á á­kvörðun sinni í leik HK og Fram.

Tómas Bent Magnús­son, leik­maður ÍBV, slapp einn inn fyrir vörn HK. Arnar Freyr Ólafs­son, mark­vörður HK, kom á móti honum úr marki sínu og reyndi að ná til boltans í sömu and­rá og Tómas Bent og úr varð á­rekstur. Vil­hjálmur Alvar Þórarins­son, dómari leiksins, mat at­vikið sem svo að Arnar Freyr hafi verið of seinn til og benti á punktinn.

„Eins og þetta horfir við mér í gær. Miðað við stað­setningu Vil­hjálms Al­vars og leik­mannanna sem eru á milli hans og at­viksins, þá trúi ég því ekki að hann hafi verið 100% viss í sinni sök,“ segir Ómar Ingi um víta­spyrnu­dóminn. En að sama skapi þá áttum sam­tal eftir leik okkar við Fram þar sem hann sagðist vera 100% viss með sína á­kvörðun og svaraði þar öllum fyrir­spurnum um það víti.

Umrætt atvik má sjá hér:

„Þetta horfir bara þannig við mér að Tómas Bent (ÍBV) tekur bara þunga snertingu og minn mark­vörður, Arnar Freyr kemur bara á mikilli ferð. Ég held það sjáist best á því hversu langt boltinn fer að ef hann hefði ekki farið af Arnari þá hefði hann aldrei skotist svona langt í burtu.

Ég neita bara að trúa því að snerting tvö hjá Tómasi Bent hafi getað komið boltanum á þann stað sem hann endar síðan á. Eftir mín sam­töl við Arnar Frey, eftir að hafa horft á þetta nokkrum sinnum sjálfur einnig, þá bara horfir þetta þannig við mér að Arnar Freyr fer í boltann og Tómas Bent lendir síðan á honum.“

Ansi stór at­vik hafa verið að falla gegn HK upp á síð­kastið.

„Ég vil ekki trúa því að þetta hafi eitt­hvað með Vil­hjálm Alvar og HK að gera. Það voru nú einnig ansi stór at­vik í leik okkar gegn Kefla­vík á dögunum sem að hann kom ekki ná­lægt. En vissu­lega finnst okkur ýmis­legt hafa verið að falla gegn okkur í síðustu leikjum.“

„Við erum þó líka sjálfir að koma okkur í þá stöðu að það sé hægt að dæma víti á okkur. Við hefðum geta komið í veg fyrir stöðuna sem Tómas Bent komst í áður en að vítið var dæmt. Auð­vitað þurfum við að gera betur í svona stöðu.

Þá höfum við, ég og leik­menn, rætt það okkar á milli að við getum ekki farið að vor­kenna sjálfum okkur og talið okkur trú um að dómararnir séu á móti okkur. Vissu­lega hefur þetta verið að falla ó­heppi­lega fyrir okkur undan­farið en það getur ekki verið hugar­farið hjá okkur í þessari viku fyrir loka­leik okkar gegn KA.“

HK á enn hættu á að falla niður í Lengju­deildina fyrir loka­um­ferð Bestu deildarinnar um næstu helgi. HK heim­sækir KA á Akur­eyri og jafn­tefli gull­tryggir veru liðsins í deild þeirra bestu. Sökum verri marka­tölu liðanna fyrir neðan gæti HK þó enn haldið sæti sínu ef niður­staða leiksins gegn KA verður tap.

„Við getum ekki nálgast leikinn þannig að reyna tapa sem minnst eða hanga á ein­hverju jafn­tefli. Það er langt síðan að við unnum síðast leik. Við þurfum bara að fara með það í huga að sigur tryggir veru okkar. Það hefur reynst okkur illa í sumar að horfa á klukkuna, bíða eftir því að leikurinn klárist. Sama hvort þeir leikir hafa verið í jafnri stöðu eða við með yfir­höndina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×