Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að hin 43 ára Phillips hafi í dómsgöngum vísað til „ósættanlegs ágreinings“, en þau Masterson hafa verið gift í tólf ár og eiga saman eitt barn.
Phillips var viðstödd þegar dómari greindi frá ákvörðun sinni um þrjátíu ára fangelsisdóm yfir hinum 47 ára Masterson.
Peter Lauzon, lögmaður Phillips, segir skjólstæðing sinn fyrst og fremst vera að gæta hagsmuna barns síns. Hann sagði einnig að Masterson hafi „ávallt verið til staðar fyrir Phillips þegar hún hafi gengið í gegnum erfiða tíma“ og að hann væri „yndislegur faðir“. Þá segir hann Phillips vona að fólk virði einkalíf fjölskyldunnar á þessum erfiðu tímu.
Í dómsgögnum fer Phillips fram á fullt forræði yfir barni þeirra Masterson. Þau trúlofuðust árið 2009 og gengu í hjónaband á Írlandi tveimur árum síðar.
Mál Masterson kom upp árið 2020 þegar þrjár konur stigu fram og sökuðu hann um nauðganir sem áttu að hafa átt sér stað 2001 og 2003. Masterson var sakfelldur fyrir tvær nauðganir árið 2003 en ekki þá sem átti að hafa átt sér stað 2001. Konurnar sögðu Masterson hafa byrlað þeim ólyfjan og nauðgað þeim.
Masterson er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Steven Hyde í gamanþáttunum That 70‘s Show sem framleiddir voru á árunum 1998 til 2006.