Innlent

Lím­band mikil­vægt sönnunar­gagn í frelsis­sviptingar­máli á Akur­eyri

Jón Þór Stefánsson skrifar
Atvikið sem málið varðar á að hafa átt sér stað á heimili hins grunaða á Akureyri.
Atvikið sem málið varðar á að hafa átt sér stað á heimili hins grunaða á Akureyri. Vísir/Vilhelm

Lögreglu er heimilt að taka strokusýni úr munni manns sem er grunaður um líkamsárás, frelsissviptingu og fjárkúgunarbrot á heimili sínu á Akureyri í mars á þessu ári. Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra þess efnis.

Strokusýnið gæti, að mati lögreglu, verið mikilvægt sönnunargagn í málinu.

Maðurinn er grunaður um að hafa frelsissvipt annan mann og beitt hann miklu líkamlegu ofbeldi í þeim tilgangi að hafa af honum fé.

Festur við stól og beittur miklu ofbeldi

Brotaþoli málsins lýsir því að hann hafi verið frelsissviptur og beittur miklu líkamlegu ofbeldi af manninum sem hafi verið að reyna að ná úr honum fé. Á meðan á þessu stóð hafi brotaþolinn verið bundinn við stól með límbandi á heimili hins grunaða

Í úrskurði héraðsdóms í málinu kemur fram að lögregla hafi gert húsleit á heimili mannsins og þar hafi fundist notað límband.

Á límhluta límbandsins hafi fundist DNA-sýni úr tveimur einstaklingum, annars vegar brotaþolanum. Hins vegar er grunur um að hitt sýnið komi úr hinum grunaða, en hann hefur neitað því að gefa DNA-sýni til lögreglu vegna málsins.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að rökstuddur grunur væri til staðar um að maðurinn hefði framið þau brot sem hann er grunaður um. Þá yrði strokusýnið gert honum að meinalausu. Landsréttur staðfesti þann úrskurð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×