Innlent

Sig­ríður Dóra nýr for­stjóri Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins

Árni Sæberg skrifar
Sigríður Dóra Magnúsdóttir er nýr forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir er nýr forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Vísir/Sigurjón

Heilbrigðisráðherra hefur skipað Sigríði Dóru Magnúsdóttur forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til næstu fimm ára. Skipunin tekur gildi á föstudag.

Þetta segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að lögskipuð hæfnisnefnd, sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana, hafi meti Sigríði Dóru mjög vel hæfa. Sex hafi sótt um embættið.

Sigríður Dóra tekur við stöðunni af Óskari Reykdalssyni sem sóttist ekki eftir endurráðningu.

Sigríður Dóra sé með læknapróf frá Háskóla Íslands, sérfræðipróf í heimilislækningum og diplóma í opinberri stjórnsýslu fyrir stjórnendur í heilbrigðisþjónustu. 

Hún búi yfir mikilli þekkingu og reynslu af rekstri og stjórnun í heilbrigðisþjónustu. Frá árinu 2019 hafi hún verið framkvæmdastjóri lækninga við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Áður hafi hún gegnt stöðu yfirlæknis á tveimur heilsugæslustöðvum, starfað sem umdæmislæknir sóttvarna og einnig sem rekstrarstjóri heilsugæslustöðvar.

Í áliti hæfnisnefndar komi meðal annars fram að auk langrar reynslu af stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu hafi Sigríður Dóra reynslu af stefnumótun og breytingastjórnun þar sem hún hafi náð miklum árangri. Það sé mat nefndarinnar að Sigríður Dóra sé góður leiðtogi og mjög vel hæf til að gegna embætti forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×