Í nýju fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í morgun kemur fram að nýju heildarkerfi fyrir skattlagningu á ökutæki og eldsneyti sé ætlað að auka tekjur ríkissjóðs um 7,5 milljarða árið 2024. Tekjur ríkissjóðs af þeirri skattlagningu hafi rýrnað mikið á undanförnum árum samhliða breytingum á bílaflota landsmanna.
Komið verði á nýju, einföldu og sanngjarnara kerfi um áramótin þar sem greiðslur bílaeigenda verði í auknum mæli tengdar notkun þeirra á vegakerfinu auk þess sem lágmark bifreiðagjalds verður hækkað. Áætlað er að tekjur af ökutækjum og eldsneyti verði 63,3 milljarðar króna.
Nýja tekjuöflunarkerfið verður innleitt í tveimur áföngum. Í fyrri áfanga verður um að ræða kílómetragjald vegna notkunar hreinorkubíla á vegakerfinu og í þeim síðari vegna bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.
Augljóst að allir þurfi að greiða fyrir notkun
„Við sjáum fyrir okkur að rafbílar muni í auknum mæli taka þátt í því að greiða fyrir notkun á vegakerfinu. Það hafa verið í gildi mjög miklar ívilnanir fyrir umhverfisvæna bíla og við höfum séð orkuskiptin eiga sér stað, sérstaklega fyrir heimilin í landinu og mörg fyrirtæki,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
„Við viljum auðvitað sjá þessa þróun áfram en heildar tekjur ríkisins af ökutækjum og umferð hafa gefið of mikið eftir. Þessar ívilnanir voru skynsamlegar til þess að fá breytinguna af stað en augljóst er að þegar upp er staðið þá verða allir að greiða fyrir þátttöku eða fyrir notkun á vegakerfinu og við erum að stíga ákveðin skref á næsta ári þar sem rafbílar munu fara að greiða fyrir notkun á vegakerfinu.“
Er komin einhver tala þar?
„Ég get bara sagt að það verður áfram mun hagkvæmara að eiga og reka rafmagnsbíl.“