Innlent

Líkir fram­boði efna­skipta­að­gerða er­lendis við villta vestrið

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Sólveig Sigurðardóttir er einn stofnenda SFO, Samtaka fólks með offitu.
Sólveig Sigurðardóttir er einn stofnenda SFO, Samtaka fólks með offitu. Vísir/Vilhelm

Formaður Samtaka fólks með offitu líkir framboði efnaskiptaaðgerða erlendis við villta vestrið. Dæmi eru um að Íslendingar hafi sótt aðgerðir úti sem ekki hafi verið framkvæmdar nægilega vel að sögn kviðarholsskurðlæknis.

Íslendingar sækja í síauknum mæli í efnaskiptaaðgerðir, hérlendis sem erlendis. Á undanförnum árum hafa rúmlega átta hundruð aðgerðir verið framkvæmdar hér á landi á ári hverju og auk þess sem nokkur hundruð hafa farið í aðgerðir erlendis á vegum Sjúkratrygginga Íslands. 

Fara í aðgerðir erlendis á eigin vegum

Því til viðbótar eru einstaklingar sem fara í aðgerðir erlendis á eigin vegum og er sá fjöldi óþekktur að sögn kviðarholsskurðlæknis. Formaður SFO segir nauðsynlegt að fólk fari í slíkar aðgerðir í gegnum heilbrigðiskerfið. Dæmi séu um að aðgerðir sem fólk fari á eigin vegum séu ekki framkvæmdar sem skildi.

„Það er verið að gera aðgerðir á fólki, við erum með sannanir, bæði innan SFO og erlendis frá. Fólk fer í aðgerð en svo er misjafnt hvað er gert. Það er kannski ekki endilega verið að gera það sem þú borgaðir fyrir sem gerir það að verkum að þú sért ekki að léttast eins og þér er lofað,“ segir Sólveig Sigurðardóttir formaður SFO.

Undir þetta tekur Aðalsteinn Arnarson kviðarholsskurðlæknir. „Í einhverjum tilvikum hafi aðgerðirnar ekki verið framkvæmdar nægilega góðan hátt eða fólk lent í einhverjum vandamálum sem þarf að sinna og reyna að leysa þegar heim er komið,“ segir Aðalsteinn. 

Illa framkvæmd aðgerð 

Eftirfylgni við sjúklinga sé mikilvæg enda geti ýmislegt komið upp á til langs tíma eftir efnaskiptaaðgerðir. Íslensk kona sem fór í aðgerð erlendis og fann ekki fyrir neinum breytingum eftir heimkomu leitaði til Aðalsteins.

„Hún svona fer að velta fyrir sér af hverju hún er ekki að léttast og spyr hvort það sé eitthvað hægt að gera. Í uppvinnslu kemur mjög fljótt í ljós að það var í raun annað hvort mjög illa framkvæmd aðgerð eða bara hreinlega ekki framkvæmd aðgerð sem hún hafði farið í,“ útskýrir Aðalsteinn. 

Spítalinn hefur hótað lögsókn

Konan gaf ekki kost á viðtali við fréttastofu af ótta við sjúkrahúsið erlendis sem hefur hótað henni lögsókn fari hún með málið lengra. Aðalsteinn segir nauðsynlegt að fólki standi til boða að sækja þjónustuna erlendis. „En á sama tíma er gríðarlega mikilvægt að reyna hafa gegnsæi í því hvaða aðilar eru erlendis eru á einhvern hátt viðurkenndir.“

Sólveig segir Evrópsk samtök skurðlækna, samtök fagfólks og sjúklingasamtök hafa tekið höndum saman og að til standi að kortleggja hvað sé í gangi. „Þetta er eitthvað sem á eftir að verða ansi skrautlegt. Sögurnar eru ansi margar og þetta er mjög stórt verkefni og þetta er bara að fara í gang,“ segir hún. 


Tengdar fréttir

Ekki rétt að tala um platað­gerðir

Hjúkrunarfræðingur á Klíníkinni segir ekki rétt að tala um plataðgerðir í þeim tilfellum sem Íslendingar hafa farið erlendis í efnaskiptaaðgerð og hún hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Vissulega hafi aðgerðir verið framkvæmdar en ekki nægilega góðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×