Innlent

„Banna hótel­byggingar? Hættu að bulla“

Oddur Ævar Gunnarsson og Hólmfríður Gísladóttir skrifa
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Jón Gunnarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir voru sammála um að verðbólgan yrði fyrirferðarmikil á Alþingi í haust.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Jón Gunnarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir voru sammála um að verðbólgan yrði fyrirferðarmikil á Alþingi í haust. Vísir/Arnar

Efna­hags­mál og verð­bólga verða meðal þess sem verður meðal fyrir­ferðar­mestu við­fangs­efna á Al­þingi á þeim þing­vetri sem er fram­undan. Þing kemur saman í næstu viku.

Þetta er meðal þess sem fram kom í Pall­borðinu á Vísi. Þar mættu þau Jón Gunnars­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir, for­maður Við­reisnar og Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir, for­maður þing­flokks Pírata.

Deilt um á­byrgð á verð­bólgu

„Hita­málið ætti að vera hvernig við bregðumst við þessari gríðar­legu verð­bólgu sem er að leika lands­menn mjög grátt og hvernig við tökum í taumana þannig að lífs­kjör verði bæri­legri en þau eru akkúrat núna,“ sagði Þór­hildur Sunna.

Hún sagði Bjarna Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra, hafa setið sem slíkur í tíu ár og eigi þannig stóran þátt í því efna­hags­á­standi sem nú ríki. Hann hafi hins vegar sagt að það sé ekki sitt hlut­verk að bregðast við verð­bólgu, heldur Seðla­bankans.

„Á ég að svara þessu skít­kasti?“ svaraði Jón þegar hann var spurður hver yrðu stærstu málin á þingi í haust. Hann sagði það af og frá að ríkis­stjórnin væri að bregðast skyldum sínum í að vinna gegn verð­bólgu.

„Það verður stóra verk­efnið í vetur. Fjár­mála­ráð­herra hefur þar verið í broddi fylkingar og kynnt sam­drátt í ríkis­rekstri, þar er um að ræða sam­tals 25 milljarða þar sem menn ætla að draga úr um­svifum. Það er gert því hér er gríðar­leg þensla á vinnu­markaði og í hag­kerfi, vegna góðs gengis í at­vinnu­lífinu, sér­stak­lega ferða­þjónustunni.“

Þor­gerður tók í svipaðan streng og Þór­hildur og Jón. Bar­áttan gegn verð­bólgunni yrði eitt af stærstu málunum í haust. Á­hyggju­efni sé að heimilin standi nú í þungum róðri þar sem margar nauð­synja­vörur hafi hækkað um tugi prósenta í verði.

„Við erum að tala um fjór­tán stýri­hækkanir í röð. Allt er það eitt­hvað sem bitnar á heimilum og litlum og meðal­stórum fyrir­tækjum. Við þurfum líka að ræða halla ríkis­sjóðs,“ sagði Þor­gerður Katrín. Hún sagði á­hyggju­efni að ríkis­stjórnin hefði ekki getað veitt ríkis­sátta­semjara auknar heimildir til að stíga inn í kjara­deilur í að­draganda veturs.

Jón sagði að sér hefði fundist ræða Þórhildar Sunnu ein sú ruglingslegast sem hann hefur setið undir.Vísir/Arnar

Vanti alla sam­stöðu í ríkis­stjórnina

Þær Þór­hildur Sunna og Þor­gerður voru sam­mála um það að ekki væri næg sam­staða í ríkis­stjórninni til þess að takast á við erfiðar á­skoranir í efna­hags­málum. Þór­hildur Sunna sagði verð­bólguna vera heima­til­búinn vanda.

„Það þarf til dæmis að fara í mjög skipulagða og targetaða skattlagningu til þess að takast á við þessa þenslu. Mikið til af þessari verðbólgu hefur með verðhækkanir að gera sem eiga ekkert endilega innistæðu. Mjög mikið af þessu er líka út af aðgerðum sem ríkisstjórnin fór sjálf í Covid, þar sem hún er að dæla peningum inn í eftrspurnarhliðina á húsnæðismarkaðnum en gerði ekki neitt til þess að hjálpa til við framboðið, allavega sem nokkru nemi.“

Jón sagði þetta hafa verið ruglings­legustu ræðu sem hann hafi þurft að sitja undir. Mikil­vægt væri að átta sig á því að sú staða sem uppi væri í efna­hags­málum væri rakin til þess að hér væri allt á fullu. Hag­vöxtur mikill, at­vinnu­leysi ekkert og meiri kaup­máttar aukning heldur en hefði þekkst nokkurs staðar annars staðar og van­skil ekki minni í ára­tug.

„Svo koma hér ein­hverjar dóm­dags­spár eins og Þór­hildur Sunna var hér með um að allt væri að fara til fjandans. Hún vill svara þessu með skatta­hækkunum og með því að banna hótel­byggingar.“

Skaut þá Þór­hildur Sunna inn í: „Banna hótel­byggingar? Hættu að bulla svona, í al­vöru talað.“ Sagðist Jón mögu­lega hafa mis­skilið hana en hún sagði hann ein­fald­lega hafa ætlað sér að búa til strámann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×